23. júní 2011

Gjaldfellt nám?


Mér tókst eiginlega að gjalfella eða a.m.k. hálfgjalfellea eitt stykki skírteini sem sýnir að ég er útskrifuð úr Háskólabrú Keilis og hef rétt á að sækja um í næstum hvað nám sem er í hvaða háskóla sem er. Þetta er nú bara skírteini úr Háskólabrú eða frumgreinadeild, hugsaði ég. Ekkert stórmerkilegt! En svo tók ég mér tak og benti sjálfri mér á nokkrar nettar og léttar staðreyndir.
Ríflega fimmtug kona sem missir vinnu ákveður að kasta sér út í óvissuferðalag. Ferðalag án tryggingar fastrar afkomu. Leita á Lánasjóðsmiðin í fyrsta skipti á ævinni. Safna „aftur“ upp skuldum. Þetta er ekki svona „Kýlum bara á það“ ákvörðun. Nei, meira svona „á ég“, „á ég ekki“ með 100 endurtekningum. Á endanum fór ég og þegar ég mætti í fyrsta skipti með ríflega 100 öðrum einstaklingum sem voru líka að hefja fjarnámið átti ég 65 einingar ókláraðar. Það var ekki lítið. Það var eiginlega svakaleg fjallsöxl fyrir framan mig þá.
Svo kláraði ég 5 einingar, léttar einingar. Svo aðrar álíka léttar. Svo koll af kolli, mis þungt mis gaman en alltaf upp á við. Þetta var eiginlega ekkert bratt, bara mismunandi flatt. Nei nú er ég að bulla, ég man það núna að sumt af þessu var alveg þræl erfitt. Mikil verkefnaskil á stuttum tíma.
Svo kom krabbinn íma.
Svo kom krabbinn – kolkrabbinn– hnúturinn í brjóstinu. Það var önnina sem ég ætlaði að bæta við mig vinnu og klára síðasta fagið í skólanum í staðnámi. Gefa mér góðan tíma til að læra þýskuna almennilega og hafa gaman af. Í þessu er engin kaldhæðni, mér finnst gaman að kunna smávegis í þýsku, hafði gaman af að læra hana og vildi gjarnan kunna meira.
Vorönnin fór því þannig – ég vann minna, lærði minna og hárið varð minna. Kolkrabbinn varð líka minni, hann var bara skorinn í burtu. Skorinn í beitu? Svo er bara að safna kröftum aftur, þ.e. ég safna kröftum, hann fær ekkert að vera með í því.
Langur formáli að því sem ég vildi klykkja út með hérna. meðan ég stóð í röð með möppuna mína sem geymdi útskriftargögnin mín hjá Keili þurfti ég að setja mig í mín eigin spor eins og þau voru í janúar 2010. Þá var langur fjallshryggur fram undan og ég tölti hann á leiðarenda, það var bara dágóð ganga. Ég kláraði og þegar ég horfði á gamla upphafspunktinn fann ég í gegnum lyfjaruglið og þreytuna hlýja ánægjutilfinningu og stolt vegna þess staðar sem ég var komin á.
Samt varð ég meira svona hoppandi kát þegar jeppinn hanns Þórhalls fetaði sig yfir fyrstu skaflana á leiðinni niður í Breiðuvík 8 dögum seinna! Ég var að hugsa um að stökkva út og faðma heiminn með allri sinni súld og þoku í fjöllum. 

Engin ummæli: