Það er merkilegt nokk en sauðburður hefur gengið þokkalega á bænum í vor þó mín nyti ekki við. Ég sem hélt að ég væri ómissandi en maður kemur í manns stað og það á víð hér.
![]() |
Jónas í tunnunni |
Afleysingaráðskonan rakst á hann Jónas í dag. Greyið hafið hlaupið ofan í tóma síldartunnu og enginn veit hvað hann var búinn að híma þar lengi við þröngan kost. Hann fékk svo vist í Machintosh krukku en það fylgdi ekkert Machintosh með í þeirri húsaleigu.
Það var ekki fyrr en komið var kvöld að við áttuðum okkur á að ostur og ungafóður dugir engum ef vatnið vantar. Hann drakk líka þar til hann varð hnöttóttur og hreiðraði svo um sig í nýþvegnum ullarlagði. Eins gott að ég þvoði eitt ullarreifi til að taka ofan af, annars hefði hann þurft að sofa á eldhúsbréfi.
![]() |
Nýklipptur grashaus vakir svo yfir Jónasi í tunnunni í nótt |
Það er óráðið hvað verður um Jónas greyið, fóstri hans er að verða sex ára og langar óskaplega til að taka hann með heim á morgun en annað foreldrið var greynilega andsnúið því. Ætli honum verði ekki sleppt langt frá bæ svo hann verði ekki sömu örlögum að bráð og ættingjar hans. Aftaka þeirra er ákveðin um leið og nýi meindýraeyðirinn fær útskriftarskýrteinið.
![]() |
Höfðingi með hvítan hatt |
Þokunni létti í gær og sólin skein á okkur í dag í norðanrokinu og kuldanum. Búlandstindurinn skartar hvítu en mér blöskrar ekki snjór í 600 metra hæð eftir að hafa séð skaflana í byggð á Héraðinu.
Af mér er það að frétta að ég uppgötvaði að vítahringur lyfja, lyfja við aukaverkunum og lyf við aukaaukaverkunum er slæmur en til að rjúfa hann þarf maður að hafa farið nokkra hringi. Það passar til að næst fer ég á ný lyf og þarf þá kannski að læra á nýjan vítahring.
1 ummæli:
Ég er hrifin af þessum grashaus...
Skrifa ummæli