17. apríl 2011

Enn ein ég


Ég þurfti að fletta því upp á blogginu mínu hvernig ástandið var eftir síðustu lyfjagjöf –segið svo að blogg séu ekki bráðnauðsynleg – og þar sá sé að á fimmta degi (lyfjadagur meðtalinn) var ég komin til baka eftir frjálst fall og slæma lendingu af 15. sterahæð. Núna fann ég sjálfa mig aftur á sjöunda degi. Hmm, þessi orð minna mig óneitanlega á eitthvað sem ég hef lesið einhverstaðar en látum kyrrt liggja að sinni. 

Ég átti góðan dag, fór í lítinn göngutúr í Grasagarðinum og gladdist yfir að finna fyrir vöðvum, því þó þeir væru ekki merkilegir þá fann ég að þeir eru þarna. Ég sá páskaliljubeð sem bráðum verða þakin ótal tegundum af blómstrandi páskaliljum og ég ætla ekki að missa þeim. 

Ég talaði lengi í símann við góða vinkonu og var endurnærðari eftir það en ef ég hefði legið á koddanum eins og til stóð og svo komu sonurinn og kærastan í kvöldmat og langt kaffispjall. 

Á morgun ætla ég að lesa og vinna í námsbókum sem hafa legið opnar og óhreyfðar á vinnuborðinu frá því á mánudag. Bróðir minn ætlar að koma í heimsókn, kannski með herdeildina með sér, og þá getum við borið saman bækur okkar um krabbameinslyfjagjafir fyrr og nú. 

Einhvern vegin var það nú svo þegar hann var í lyfja- og geislameðferð árið sem hann varð tvítugur var ekki til siðs að ræða svona feimnismál. Stundum hefur verið haft á orði í fjölskyldunni að krabbinn væri ættgengur, hann er víst ekki það eina. Að þrauka þegjandi virðist vera það líka. Það munstur má þó að ósekju brjóta upp án þess að steypa sér í eitthvað helv. væl. 

Í dag fann hluti sem ég vissi ekki að hefðu týnst og var ekki að leita að en finn ekki það sem mig vantar.
Já, t.d. íslensku málfræðibókina mína sem ég ætlaði að glugga í til að endurlæra núliðna tíð og um núþálegar sagnir og platan sem festir myndavélina á þrífótinn er horfin. Sjálfsagt finn ég hana þegar ég verð búin að gleyma að mig vantar hana. Það verður samt seint því ég þarf að mynda nokkra hluti í myndseríu sem heitir „Smámunir“

Engin ummæli: