Ég datt ofan í holu á laugardaginn og á sunnudagsmorgunin var ég þar enn. Aðalatriðið við að kúra ofan í svona pyttum er að gera sér ljóst að maður ætlar ekki að liggja þar endalaust. Þetta tekur enda en þangað til má maður vera þreyttur, dapur, kvíðinn, aumur sár og með skælurnar í hálsinum og tárin í augunum annað slagið.
Eftir hádegi á sunnudag velti ég vöngum yfir þvi að þetta væri sérlega illa farð með tíma minn. Ég þarf að koma miklu í verk eins og alltaf og mér varð hugsað til minningargreinanna.
Einu sinni var það mesta hrós um látnar eldri konur að þeim hefði aldrei falli verk úr hendi. Nú sé ég miklu frekar minnst á hvað þær bökuðu pönnukökur af mikilli listfengni.
Ég baka sjaldan pönnukökur og sá að við svo búið mátti ekki standa, ef ég héngi aðgerðarlaus miklu lengur ætti hvorugt við um mig að leiðarlokum. Þetta fannst mér auðvitað svo afskaplega fyndið að holan breyttist í hæð, ég dreif mig á fætur og fór að brasa eitthvað svo mér félli nú ekki mikið lengur verk úr hendi.
Ég bjó til súkkulaði. Heitt súkkulaði og brauð með osti er ljúft afmæliskaffi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli