Ég hrósaði heldur snemma happi. Taldi biðstofu kannanir vera á enda en svo hringdi síminn og enn fæ ég að skoða lesefni fortíðar á biðstofum og enn hefur mér ekki lærtst að taka til neyðarpakka til biðstofudvalar.
Neyðarpakki til biðstofudvalar gæti innihaldið eftirfarandi:
1 stk. bókmenntatímarit s.s. Stína eða Tímarit M&M, nú eða Skírnir.
1 stk. bók með góðu léttmeti s.s. Terry Pratchetti eða Neil Gaiman.
1 stk. MP3 spilar með tónlist eða þýskri léttlestrarbók.
1 stk. orkeringar nál, garn, og auðvelt munstur
1 stk. margnota kaffimál (það er umhverfisvænna en öll þessi pappaglös sem standa við kaffikönnurnar)
1 stk. blýantur
1 stk. minnisblokk. (er reyndar alltaf með eina slíka, annars hefði ég ekki skrifað þetta niður meðan ég beið)
1 stk. dagbók til að skrifa niður næstu tíma og upplýsingar.
1 stk. mappa með gögnum og bæklingum sem hafa hrúgast að mér undanfarið?
Hvað ætli ég þurfi stóra tösku fyrir þetta allt. 35 lítra göngubakpoka kannski? Það færi auðvitað eftir kílóafjölda lesefnis.
Við þetta má auðvitað bæta spjöldum eða minnisbók með áhersluatriðum úr námsefninu. T.d. beygingar núþálegra sagna og óreglulegra sagna og þeim persónufornöfnum sem hef ekki enn gefið mér tíma til að læra almennilega.
Það ætti nú að vera auðvelt að bæta úr þessu síðasta, nóg á ég af minnisbókum.
Vonandi dettur engum í hug að ég ætli að lesa bæði bókmenntatímarit og enskar fantasíubókmenntir ásamt því að orkera og læra þýsku á þessum akademísku 20-30 mínútum sem maður eyðir á biðstofum Landspítalans. Málið er auðvitað að hafa úr einhverju að moða. Það skiptir alltaf máli að eiga val.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli