16. mars 2011

Hrafnamál.

Ég á hálfsmíðaðan hrafn, úr dökku og ljósu hvalskíði. Mér líkar við hrafna sem eru hvorki hvítir né svartir, eða bæði hvítir og svartir. Á morgun ætla ég að kaupa mér þjöl sem dugir mér til að klára hann. Svo ætla ég að finna mér teikningu að morgunhana til að saga út úr horni. Það er ómögulegt að vinna með annara manna hugmyndir lengi, jafnvel ekki þó þær séu góðar. 
Ég held að ég sleppi því að fara á fyrirlestur Áslaaugar Thorlacius um rússneska portrettið á morgun, nema e. vilji endilega fá mig með sér. 

Ég held stundum að ég fari út um allt of víðan völl í áhugamálum en það er ósköp gaman. Þessi svakalega nýjungagirni verður þó til þess að ég er þessi óþolandi týpa sem hefur prófað allt, hefur vit á öllu og læt það í ljós. 

Ég hef samt ekki vit á þýsku og gekk herfilega í prófinu í dag en ég hef þó allavega prófað þýsku eins og svo margt annað. 

Nú held ég að bull tíminn sé liðinn og göngutíminn kominn.

Engin ummæli: