Ég set mér annað slagið göfug markmið, s.s. læra daglega, hreinsa upp af vinnuborðinu tvisvar í viku og oftar ef þarf, leggja af um nokkur kíló og í mörg ár setti ég mér sama markmið í hvert sinn sem ég skreið undir sængina á kvöldin. Það tók mig samt mörg ár að ná því markmiði að hætta að reykja, enn læri ég ekki nema með höppum og glöppum og vinnuborðið er á kafi í verkefnum –enda er ég í veikindafríi. Um áramótin síðustu sett ég mér það markmið að ganga daglega þangað til ég gæfist upp á því en sú stund er ekki runnin upp enn þá, sem betur fer.
Í dag skrapp ég svo í Ljósið og hitti iðjuþjálfa sem setti niður stundaskrá og markmið fyrir mig svo ég lognist nú ekki útaf í sófanum heima, heldur stundi félagslifið grimmt og haldi mér í andlegu formi.
Samkvæmt stundaskrá eyði ég þriðjudögum framvegis í Ljósinu frá 10 á morgnana til 4 á daginn. Yoga, ganga, matur, slökun, saumanámskeið. Mér tókst líka að fá hana til að pota mér inn á námskeið í horn- og silfursmíði. Ég bara verð að fá að vita hvað er verið að gera þar. Svo setti hún trétálgun líka á stundaskrána en þar sem ég ætla að klára blessaða þýskuna verð ég að skrópa í þeim tímum.
Ég varð að viðurkenna fyrir konunni að ég ætti fulla skápa af hinu og þessu dóti sem ég hef keypt í gegnum árin þegar áhugasviðið hefur snúist eins og skopparakríngla. Prjónagarn, heklugarn, hálfkláraðir skartgripir, útsaumur, efni í nokkrar flíkur, póleringarpúðar fyrir horn, eitt eða tvö útskurðarjárn, myndavél, myndvinnsluforrit og kennslubækur í ljósmyndun svo eitthvað sé nefnt. Ég kom mér hjá því að minnast á þykkan stafla af teikniblokkum, blíöntum, pastel- og olíulitum. Nóg var nú samt.
Eins og ég er löngu búin að átta mig á er auðvelt að setja sér markmið, meira að segja raunhæf markmið en erfiðara að fylgja þeim. Það má svo sem segja að markmið séu ekki raunhæf nema þau sem auðvelt er að fylgja en einhvern vegin tekst mér að flækja málin svo að það sem var raunhæft í gær er óraunhæft í dag. Nú eru óvissuþættir að eyðileggja stemminguna. Viðbrögð við lyfjameðferð eru einstaklingsbundin og ég get ómögulega planað mig fyrr en ég veit hvort ég þarf að berjast við margra daga ógleði og slappleika. Sumir verða veikir strax á fyrsta degi, aðrir á öðrum og enn aðrir verða bara voða lítið veikir af lyfjunum. Ég bíð eftir að komast að því hvernig ég þoli lyfjameðferðina og sú bið er ekkert sérlega ánægjuleg.
Ég þarf að mæta í enn eitt viðtalið niður á LHÍ á miðvikudag, núna hjá hjúkrunarfræðingum á krabbameinsdeild vegna undirbúnings fyrir lyfjameðferðina á mánudag og vonandi verður það það síðasta í langan tíma. Ég er orðin svo leið á viðtölum og mætingum þar að ég er eiginlega farin að hlakka til að byrja í meðferðinni, þá þarf ég a.m.k. ekki að mæta nema á þriggja vikna fresti, og svo auðvitað verður óvissunni aflétt um leið og meðferðin byrjar.
1 ummæli:
þá er ég komin með þriðjudagana á hreint (þú ert ekki heima!). Ég er að bíða eftir markmiðum fimmtudaganna.....
Skrifa ummæli