Mánudagurinn 7. mars rann upp mánudaginn 7. mars. Ekkert flókið við það og ekki flókið mál að skreppa niður á Lansa í enn eitt viðtalið. Það eina sem var flókið þann dag var að finna réttan gang og rétta móttöku, þetta er ruglingslegt gangakerfi þarna og betra að muna hvort það stóð 11E, B, D eða C á miðanum sem maður fékk. Það er líka betra að hafa gleraugun meðferðis svo hægt sé að lesa á miðann.
Ég hitti krabbameinslækni á mánudaginn, fékk útskýringu á AC, HER2 og einhverjum fleiri skammstöfunum, pírótíni og hraðvaxta en ekki hormónaviðtækum æxlum. Möguleg ferðalög krabbameinsfruma um blóðrás og svona sitt lítið af hverju.
Ég mætti aftur á LHÍ í dag og ætla aftur á morgun. Í dag í viðtal og blóðprufu og á morgun fæ ég innbyggðan lyfjabrunn. Það þýðir að annað hvort held ég mig innan landamæranna í 52 vikur eða tek með mér vottorð til að veifa framan í öryggisverðina í Leifstöð og Úsbekiztan í haust. O, ætli ég láti ekki skrifa fyrir mig vottorð.
HER2 jákvætt þýðir að á yfirborði krabbameinsfrumanna er of mikið af próteini sem kallast HER2 viðtakar og þeir viðhalda starfsemi og auka vöxt krabbameinsfrumna. Þetta er það sem er kalla III gráðu krabbamein og hefur venjulega meiri tilhneigingu til að dreifa sér um líkamann en annað brjóstkrabbamein.
Krabbamein af þessari gerð hefur verið meðhöndlað á áhrifaríkan hátt með AC, TH og Hereptín lyfjum. Ég man ekkert hvað þetta AC og TH stendur fyrir en þau þarf ég að fá í hálft ár. Þe AC 4x og eftir það TH 4x og með því Herseptín, sem er svo gefið áfram eftir að annari lyfjameðferð lýkur. Alls í 52 vikur.
Á brjóstkrabamein.is stendur þetta.
Ofvirkni æxlisvísa á sér stað þegar æxlisvísir (eins og sá sem kallast HER2/neu) hættir að starfa rétt og verður “ofvirkur” ( þ.e. fer að æpa í stað þess að tala, svo notuð sé einföld mynd) og gerir það með því að búa til meira af eðlilegum eða óeðlilegum prótínum og viðtökum en eðlilegt er. Það getur framkallað krabbamein. Krabbamein sem er afleiðing ofvirkra æxlisvísa eins og HER2/neu hefur tilhneigingu til að vera ágengara og líklegra til að stinga aftur upp kollinum en aðrar tegundir krabbameins. Aðrar meðferðarleiðir kunna sömuleiðis að virka á það en á aðrar tegundir brjóstakrabbameins.
Að reikna megi með góðum árangri af notkun trastuzumab (Herceptin®), sérhæfðu lyfi sem notað er til að meðhöndla HER2/neu prótín í s.k. marksækinni meðferð.
Trastuzumab (Herceptin®)Herceptin® er best þekktasta marksækna lyfið við brjóstakrabbameini. Herseptín hrífur aðeins á frumur sem eru með of marga HER2 (prótín) viðtaka. Herseptín getur haft í för með sér þekktar hættulegar aukaverkanir.
Í mínu tilfelli á Herceptin lyfið að draga úr hættu á að krabbamein taki sig upp aftur en ég var með meðalstórt æxli og meinvörp í einum eitli. Hin lyfin drepa svo þær frumur líkamans sem skipta sér örast og um leið og þær ganga frá krabbameinsfrumum –sem gætu verið að dunda sér einhverstaðar í æðakerfinu– drepa þær ýmsar aðrar frumur sem skipta sér ört svo sem í slímhúð.
Herceptin hins vegar er ákveðið mótefnisprótín sem hengir sig á HER2 viðtaka í krabbameinsfrumum og kemur í veg fyrir að þær geti tekið við vaxtarboðum. Lyfið hefur sjaldan áhrif á aðrar frumur líkamans og þess vegna fylgja því færri alvarlegar aukaverkanir en þær helstu eru hjarta- og lungnaskaðar.
Ég fæ lyfjabrunn á morgun, voða fín græja sem gerir það gagn að ég verð ekki stungin út og suður í þennan eina handlegg sem má nota til að gefa lyf í eða taka úr blóð, já og mæla blóðþrýstinginn. Vinstri handleggurinn er gagnslaus til slíkra hlut eftir eitlaskafið. Alltaf eitthvað nýtt í fréttum í þessum feðalögum á viðtals- og í skoðunarherbergi lífsins.
Í fyrramálið verður lyfjabrunninum komið fyrir, hann er settur við viðbeinið, undir húð og úr honum er slanga inn í bláæð, ekki samt alveg niður í hjarta. Í gegnum hann fer svo lyfjagjöfin og úr honum verða líka teknar blóðprufur framvegis.
Staðdeifing, kæruleysislyf –yes ég dett i það fyrir hádegi á morgun– tekin nokkur spor og svo heim til að gróa.
Annað viðtal í næstu viku vegna lyfjagjafar sem byrjar svo 21. mars.
17.11.2012
Almáttugur hvað maður fær misvísandi upplýsingar og misskilur margt í svona ferli. Lyfjabrunnur setur engin öryggishlið af stað, ég hef farið í gegnum nokkur síðan hann var settur upp og ekkert píp. Lyfjabrunnur er hins vegar settur upp í léttri svæfingu, ekki staðdeyfingu og ástæðan fyrir því að vinstri handleggurinn er ekki notaður við blóðgjöf og þ.h. er smithætta eða e.þ.h. þar sem allt kerfið er í klessu í honum.
Það hefur ýmislegt fleira misskilist og misfarist en það gleymist eins og annað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli