4. febrúar 2011

Veldur hver á heldur

Veldur hver á heldur merkir að  það skiptir máli hver hefur ráðin í sínum höndum en ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna þessi málsháttur hefur ofsótt mig í dag.  Hann skýtur upp kollinum í kollinum á mér í tíma og ótíma og raðar sér upp á undan meinleysislegustu hugsunum.

Næst síðasti áfanginn í skólanum var kláraður í dag (vonandi, þetta var snúið próf) og ég  hafði heitið sjálfri mér því fyrir mörgum dögum að þetta þyrfti að halda upp á.  Skipulagði hljóðaði upp á hugguleg heit með rauðvínsglasi og bók eða handavinnu í stofusófanum í kvöld. Því var þó ekki að heilsa því dóttirin þurfti bíl og bílstjóra til að skutlast eftir þurrkara langleiðina upp í Bláfjöll.

Það kafsnjóar í Kópavogi, Hafnarfirði og í úthverfinu okkar, Reykjavik. Sumar götur, til dæmis okkar, eru ekki ruddar og við áttum heldur ekki von á góðri færð þarna í óbyggðum Hafnarfjarðar. Til að tryggja ekki eftir á var farið á ja.is, kortið grandskoðað og brauðmolarnir tíndir til svo við rötuðum nú örugglega heim aftur eins og þýsku systkinin hérna um árið. Við hættum þó fljótleg við brauðið, það hefði fennt á kaf á örskammri stund, en sem betur fer hafa nágrannar okkar Hafnfirðingar hannað athyglisvert gatnakerfi. Nú glöddumst við yfir hringtorgunum. Átta hringtorg í 180°  og tvö í 270°. Segið þið  svo að þessir tveir stærðfræði áfangar hafi ekki komið að góðum notum.  

Við höfðum að venju rétt fyrir okkur, mæðgur, það var hálfófært þarna í uppsveitum Hafnarfjarðar og varla hægt að sjá að nokkur hefði átt leið um göturnar í kvöld. Ég viðurkenni að ég var dálítið stressuð, jæja frekar stressuð, á lánsbíl nýkomnum úr beygluviðgerð og sprautunn, einmitt eftir útafkeyrslu í svona veðri og færð.

Þegar þurrkarakonan afhenti okkur tækið var hlaupið með það í bílinn og gefið í að næsta hringtorgi, 90° og út. Það var nýfallinn ósnortinn snjór framundan.
„Hafa Hafnfirðingar götuljósin á milli akgreina eða er ég upp á gangstétt" spurði ég dótturina.
„Þú ert ábyggilega að keyra á gangstéttinni“ var svarið, og ég snaraðist til vinstri yfir einhverjar misfellur og í hjólförin á veginum. Það var í góðu lagi þar til ég kom að næsta hringtorgi. Enginn hannar hringtorg þannig að það þurfi að taka U beygju inn í þau, ekki einu sinni Hafnfirðingar. „Hvað varstu annars búin með mikið af rauðvíninu “ spurði dóttirin. 
Ég svaraði ekki en hugsaði, betur að satt væri, vegakerfið í Hafnarfirðinum getur ekki annað en lagast eftir eitt eða tvö rauðvínsglös. 

Þurrkarinn bíður í bílnum, á morgun ætla ég á fyrirlestur  um Farandverkafólk og sjókonur fyrri alda klukkan 11 og klukkan 15 ætla ég að hlusta á Jóhönnu Kjalnesingagoð tala um rúnir.

Engin ummæli: