Ég byrjaði á bók í morgun, fór á hálfan fyrirlestur í Sjóminjasafninu, seinan heilan fyrir lestur um rúnir, var sifjuð, var þreytt, eiginlega örmagna. Las samt meira eftir að ég kom heim, kláraði bókina og varð enn þreyttari og enn daprari. Kannski á maður ekki að lesa svona bækur nema maður sé vel fyrirkallaður.
Í kvöld fór ég út að ganga, snjórinn magnar birtuna frá borgarljósunum svo himininn nær ekki sínum dökka lit. Það sjást bara skærustu stjörnurnar á himni og jafnvel þær virka dauflegar í ljósmenguninni. En það var fallegt við voginn. Borgarljósin spegluðust í sjónum og snjórinn er hvítur, mjúkur og freistandi. Ég sleppti snjóenglunum en settist á bekk og horfið eftir stjörnunum. Mér tókst þó ekki að hrekja söguna úr huganum. Sumar sögur setjast að í sálinni og þar þurfa þær að fá að hefast í rólegheitum áður en maður vinnur úr þeim. Svona svolítið eins og súrdeig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli