10. mars 2012

Það er búið sem búið er

Nú langar mig bara að sitjast niður og prjóna. Ég get ábyggilega fundið mér eitthvað til, ég átti til dæmis eftir að prjóna lopapils á mig.
Ég er nefnilega búin að vera dugleg í gær og í dag. Í gær sat ég undir fyrirlestrum á Hugvísindaþingi og hlustaði á konur og karla (einn karl) fjalla um smásögur. Sagnasveigar, miðamerískar smásögur, franskar síðmiðaldasmásögur, spænskar og íslensk-kanadískar smásögur voru til umræðu. Eftir allan þennan smásagnaþokka hespaði ég af fyrirlestradagbókum sem ég hef reyndar tíma fram í apríl til að skila, en mikið óskaplega er gott að vera búin með þetta. Bara nokkrar leiðréttingar eftir og svo get ég losað mig við þær.
Ég sé það alltaf betur og betur hvað sjónin í mér óskjávæn, mér sést yfir skelfilegustu innsláttarvillur þegar ég les bara á skjáinn og þá verður mér hugsað til allra þeirra ótal bloggpistla sem ég hef umhugsunarlaust og óritskoðað hent út á netið. Ég velti því í fúlustu alvöru fyrir mér að prenta þetta (og þá á ég bara við þetta, ég ætla ekki að prófarkalesa frá upphafi) út og lesa yfir áður en ég smelli á publish. Svo æ, nei ég nenni því ekki.
Í dag voru fyrirlestrar sem mig langaði á til dæmis þessi um vörtur í landslagi en eins og sumir sem þekkja mig er ég gallharður andstæðingur grjóthrúgnanna sem blása út í Esjuhlíðum og í Búrfellsgjánni og uppi á Helgafellinu.  Ég færi þó seint að sparka niður 100 ára gömlum vörðum í nafni fegurðarsjónarmiða. Fólk  verður að gera greinarmun á vörðum og grjóthrúgum. Já ég veit að vörður er svo sem ekki annað en grjót sem er hrúgað upp á misskipulegan hátt en yfirleitt voru þær gerðar í ákveðnum tilgangi og blésu ekki út í hvert skipti sem útvistarfrík gekk framhjá.
Þetta er efni í langa grein og nú var það greinilega líka efni í fyrirlestur sem ég mátti ekki vera að að fara á, ég læt þetta duga í bili og held áfram að hafa áhyggjur af því hvernig helstu gönguleiðir útivistarfólks komi til með að líta út eftir 20 - 50 ár.   Ég get bara ekki  látið mér standa á sama.

Engin ummæli: