Eins og stundum áður furða ég mig á þvi hvernig ég lenti þar sem ég lenti. Ég rölti niður í kjallara til að leita að tveimur blýöntum sem ég keypti fyrir nokkrum dögum og ætlaði að stinga í jólapakka. Auðvitað byrjaði ég á því að setjast niður fyrir framan tölvuskjáinn og skoða stöðuuppfærslur á Facebook. Ég neita að nota fésbók, snjáldra, feisið, fésið, andlitið eða hvað það nú er sem fólki dettur í hug. Tengslavefur eða vinadragnót væri nærri lagi. Hvað með vinatrollið? Svo opnaði ég bloggið til að liðka fingurnar og heilann eftir langt hlé og það næsta sem ég vissi var að ég sat fyrir framan dótakassana mína. Kassa sem ég hef lítið opnað síðan ég raðaði niður í þá 2002 og tróð undir rúm hjá mér.
Kassarinr mínir eru fullir af gersemum ekki síður en kistan sem geymdi rósaklútinn frá henni Guðrúnu og hringinn frá Hildi. Enga tryggðarpanta samt. Þarna fann ég forláta teikniblokk með 180 gr. pappir sem var keypt í París árið 2000, ef ég man rétt. Í henni er ein skissa eftir mig og margar eftir bróðurdóttur mína, hún merkir þær LH 7 ára. Þar af ein skemmtileg sjálfsmynd þar sem ég ætla að senda henni við tækifæri.
Þarna er forljót akríl eða olíulitaæfing af einhverju námskeiði, gæti verið frá 1995. Skemmtilega ljót svo henni verður seint hent. Þarna eru úrklippur sem ég notað sem fyrirmyndir og til að æfa mig á. Þarna eru skissur og krot í mörgum blokkum og ég sé að það sem einkenndi feril minn sem teikniáhugamaður er eitthvað sem gæti flokkast undir shopping alcoholism.
Ég tók eða sjaldnast með mér teikniblokk, blýant og liti í ferðalög en fékk alltaf teiknimaníu og keypti á staðnum það sem þurfti til að losna við kláðann úr fingrunum. Ég á blýanta, pastelliti og teikniblokkir frá París, Barcelona, London, (úr nokkrum ferðum) og Montreal. Kannski fleiri stöðum. Teikniáhöldin eru vel með farin og lítið notuð, allavega mörg hver enda hef ég varla sett strik á blað síðan ég flutti í núverandi húsnæði. Enn ég samt erfitt með að stilla mig um að kaupa góða teikniblokk, eins og einn blýant eða pastellit ef ég kemst í færi.
Í kössunum mínum fann ég líka dýrmætt sendibréf. Bréf frá konu sem hætti að reykja, sent á aðra konu sem var líka hætt að reykja. Þessu reykleysi fylgdu ákveðnar aukaverkanir og það leynir sér ekki í bréfinu hvað var efst á baugi hjá okkur vinkonunum þá.
Því miður er skanninn ekki að ná allri síðunni en svona því sem máli skiptir.
Þetta er snilldar bréf og mér finnst nú svona eiginlega vera kominn tími á annað.
Nú langar mig að teikna. Þar fyrir utan fékk ég bók með ritæfingum fá Amazon í dag og mig langar að æfa pennan. Svo rakst ég á garn sem ég keypti til að orkera úr, mig langar til að orkera. Ég er með hitt og þetta hálfklárað á prjónunum, mig langar að klára það. Mig langar til að hekla. Vinna? Jú mig langar að hreinsa til á „óklárað“ listanum þar. Ég er með slatta af ólesnum bókasafnsbókum, mig langar að lesa þær.
Eitt er þá alveg áreiðanlegt að eftir hádegi á þriðjudaginn ætlum við að setjast niður og búa til eins og eitt kort. Kannski tvö, Elín (Bára) teiknar og ég fæ að lita. Þetta verður svona „painting by numers“ hjá mér.
1 ummæli:
Ætli það sé viðtekin venja hjá konum að hafa áhuga á öllu og koma bara hluta af því í verk ?
Safna og safna efni, verkefnum og láta svo allt og alla fá tímann sem átti að nýtast til skemmtuninnar.....
Skrifa ummæli