Ég er að prjóna, ó já, gríp í það annað slagið og á núna 1 og 1/4 vetling í prjónapokanum. Slatta af sokkum sem á af ýmsum ástæðum eftir að klára, lopapeysu sem ég þarf að rekja upp að hluta og laga og einbandskjól sem ég nenni ekki að halda áfram með. Ástæðurnar fyrir þessum hálfkláruðu verkum eru jafn misjanar og þær eru margar. Það getur verið fj. snúið að finna út úr villu á munstri og svo vantar viðbótarlopa í réttum lit og svo er bara afskaplega gaman að byrja á einhverju nýju.
Í allri þessari prjónahyggju minni er ég búin að reikna það út að ég spara í versta falli 680 pr. kíló á þvi að útbúa minn léttlopa sjálf. Og það miðast við tilboðsléttlopann sem er til í Nettó núna. Auðvitað var ég harð ákveðin í að það væri of tímafrekt framkvæmd að tvinna plötulopa en svo fylltist húsið í hólf og gófl af léttlopa sem ég ætla að prjóna úr jólasokka og vetlinga við tækifæri. Þá falaðist ég eftir snældu. Svo hef ég gripiði í að spinna það meðan ég bíð eftir að kaffivélin klári sitt verka.
Það kom mér á óvart hvað þessi iðja er notalega hugstillandi.
Næst vantar mig ullarkamba og rokk.
Þó skólinn sé búinn í bili, og síðasta prófið með, get ég ekki staðið og tvinnað lopa eins og mig listir. Því síður dundað mér við prjónana, ég þarf að vinna. Ég get nú ekki sagt að það sé jafn góð hugræn meðferð og ullarvinnslan að hafa köttinn við hliðina á lyklaborðinu, til þess er of mikið háralos á honum. Það er þó ekki alslæmt að hafa félsgsskap á vinnustaðnum.
Öll er skepnan skemmtigjörn,
skoðið þið litla stýrið:
malar sinni kjaftakvörn,
kringluleita dýrið.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli