12. desember 2010

Fyrsti í jólasveinum

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
- þá var þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
- það gekk nú ekki vel

Stekkjastaur kom til byggða í nótt, vonandi er hann þjóðrækinn í ár og skilur rauða rayon gallann og nælonskeggið eftir úti í hrauni. Hann færði mér ekkert í skóinn, ekki á leppann og því síður í leistann, en hjá ákveðnum fb vinum mínum sé ég að þetta þrennt hefur verið sett í gluggann fyrr og síðar. Leppurnn er þó nýjasta trendið hjá konu á áttræðisaldri. 

Ég æfi mig fyrir Þorláksmessukvöld með því að fara út að labba smá hring í hverfinu. Ég vildi geta sagt að það væri daglega en önnumkafið fólk er gjarnt á að gleyma sér og gleyma stundum því sem síst skyldi.

Ég gekk minn venjulega hring í áðan, meðan morgunninn safnaði kjarki til að taka fjölbragðaglímu við nóttina. Ég dáðist að ljósaskreytingum nágrannanna og velti því fyrir mér hvað byggi bak við óskreytta glugga í myrkvuðum húsum. Dauflegar og fölar stjörnur voru að gefast upp fyrir rafmagnsljósadýrð bæjarins og karlinn í tunglinu faldi sig í nótt í tilraun til byrgja mönnum sýn á jólasvein sem læddist milli glugga. Karlanginn varar sig ekki á svikulum götuljósum sem sýna verum í leynilegum erindagjörðum enga tillitssemi.

Ég sá í Fréttablaðinu –og þarf að skrifa það hjá mér– að það er til hellingur af jólasveinum og -stelpum sem ekki eru skilgetin afkvæmi Grýlu og Leppalúða og fá þess vegna ekki að vera með í „Gefa í skóinn klúbbnum“
Kannski eru þetta launsynir og dætur Leppalúða, börn Grýlu úr fyrri samböndum, eða fjarskyldir ættingjar sem jólatrölla aðallinn lítur niður á. Hver vill svo sem hafa Faldafeiki og Lungnasletti á ættartrénu. 

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahahaha...
Jamm æfðu þig..... ég sem ættingi þeirra krefst hér með að ganga undir jólasveinanafni mínu: Súkkulaðisleikir eða Smákökugleipir allt eftir því hvernig liggur á mér....

Hafrún sagði...

Afkomandi Grýlu og Leppalúða, í hvaða ættlið?

elina sagði...

hmm... finnum út úr því við tækifæri.