22. nóvember 2010

Sunnudagsgangan

Ég fórnaði mér fyrir vinkonu mína í gær. Ég vissi sem var að annað slagið þurfa heilasellurnar hennar á hreinu lofti að halda til að í þeim tolli upplýsingar um oxun og önnur efnahvörf. Þess vegna hringdi ég í hana á laugardag og sagði „Komdu út að labba á morgun“.  Þarna var sem sagt notaður boðháttur en samt átti þetta frekar að vera fórnarháttur þar sem ég var að fórna mér í hennar þágu. Ég hef bara ekki fundið þann hátt hvorki danskra eða íslenskra sagna. Ég hef fundið lýsingarhátt, boðhátt, viðtengingarhátt, framsöguhátt, þátíð, þálíðnatíð, framtíð og einu sinni var til skildagatíð, bara engin fórnartíð og enginn fórnarháttur!
Þess vegna nota ég boðhátt. 


Síðdegisganga um furuskóginn í Elliðaárdalnum þegar hrímið leitar hikandi eftir fangbrögðum við visna njóla og lauflaus birkitré. Þegar máninn sleppir Esjunni og fetar sig upp eftir himninum til að hrekja burtu daginn. Þegar  umferðarniðurinn er kæfður þéttum nálum furutrjánna og rökkrið sígur yfir.
Þá er gott að vera úti.
 

1 ummæli:

elina sagði...

Þakka þér fyrir gott rölt... fórnfúsa kona !!!