Ef mér skjátlast bið ég RÚV afsökunar en held pistlinum samt hér inni.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Freyr Eyjólfsson
Eru kynin ólík?
Stelpur og strákar eiga að fá sömu tækifæri og hvatningu. Þessu trúa flestir foreldrar og þeir trúa því sömuleiðis að þannig séu börnin okkar alin upp í raun og veru.Ef Óli vill æfa fótbolta fær Katrín sama tækifæri og ef Óli vill læra á selló eins og Katrín þá fær hann sömuleiðis sömu hvatningu og tækifæri. En er þetta svona í raun? Komum við eins fram við stelpur og stráka í uppeldinu? Vísindarannsóknir sýna að svo sé ekki. Strax eftir fæðingu eru drengir klæddir í blá föt og stúlkur í bleik og þar með byrjar kynjamótunin. Í nýlegri rannsókn var prófað að skipta um föt hjá drengjum og stúlkum án vitundar fólks og kanna viðbrögðin. Þegar fólk var beðið um að skoða og lýsa börnunum lýsti það drengjunum (sem raunverulega voru stúlkubörn) sem órólegum og spenntum en stúlkunum(sem voru dulbúnir drengir) sem prúðum og rólegum. Þveröfugar niðurstöður komu síðan í ljós þegar börnin voru klædd sínum „réttu litum“.
Í nýútkominni bók, Pink Brain, Blue Brain: How Small Diffrences Grow Into Troublesome Gaps – And What We Can Do About It, eftir taugavísindamanninn Lise Eliot tekur hún fyrir hina klassísku eðlishyggju og hakkar hana í spað. Heili ungbarna er nákvæmlega eins; það er sáralítill munur á stúlkum og drengjum við fæðingu. Það erum við sem mótum kynin í uppeldinu og það byrjar strax eftir fæðingu! Hún vísar í fjölmargar rannsóknir sem sýna að foreldrar ali stúlkur öðruvísi upp en drengi. Kynin fái öðruvísi hvatningu og atlæti og þess vegna læri börn snemma sín klassísku hlutverk og þetta móti bæði heila þeirra og þroska almennt.
Hins vegar bendir hún á að fáar eða næstum engar rannsóknir sýni fram á það að kynin séu ólík. Það sé hrein og bein bábilja að strákar séu í eðli sínu eitthvað ólíkir stúlkum. Og þær fáu rannsóknir sem gerðar hafi verið til styða hina svo kölluðu eðlishyggju séu oft afskræmdar og rangtúlkaðar. Til að mynda kenningin um vinstra og hægra heilahvelið. Að vinstra heilahvelið sé virkara í konum en körlum er byggt á lítilli rannsókn sem gerð var árið 1982 þar sem einungis 14 heilar voru skoðaðir. 50 aðrar sambærilegar rannsóknir gátu ekki stutt þessa tilgátu og sýndu allt aðrar niðurstöður þar sem enginn munur fannst á kynjunum; þ.e.a.s ef börn voru rannsökuð. Samkvæmt þessu er heilastarfsemi barna ekki kynbundin. En síðan gerist eitthvað.
Það er að vísu eitt sem aðgreinir nýfædd börn. Drengirnir eru örlítið órólegri og pínulítið uppstökkari – hvað sem veldur því. Þeir fá því öðruvísi aðhlynningu og mæta öðru viðmóti strax á fyrstu dögum lífs síns. Þessi litli munur hafi síðan mikil og mótandi áhrif snemma í uppeldinu. Hálfs árs gömul börn vilja til að mynda frekar leika með dúkkur en bíla en þegar þau eru orðin ársgömul hafa þau yfirleitt „lært“ með því að fylgjast með öðrum börnum og sömuleiðis í gegnum afar lúmska hvatningu fullorðna fólksins að leika með stráka- og stelpuleikföng.
Í þessari bók skýtur Lise Eliot föstum skotum að þeim sem trúa því að munur sé á kynjunum við fæðingu. Hún segir það villandi og hættulegan hugsunarhátt. Þessi hugmynd um að kynin séu ólík, strax við fæðingu, hafi áhrif á það hvernig við ölum börnin okkar upp. Uppeldi barna okkar veltur þess vegna á því hverju við trúum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli