Ég skrapp á árlegt glæpakvöld Hins íslenska glæpafélagis í kvöld og hlustaði á nokkra glæpasagnahöfunda lesa upp úr nýjustu skáldsögum sínum.
Þarna lásu Þórunn Erla, Ævar Örn Jósepsson, Ragnar Jónasson, Ylfa Sigurðar og sennilega Óskar Hrafn og Páll Kristinn sem átti að lesa fyrir Árna Þórarinsson. Ég náði í skottið á lestri Þórunnar Erlu úr Eyru ljónsins hún les vel, bókina var ég auðvitað búin að lesa. Ragnar las úr Snjóblindu og með lestrinum sannfærði hann mig um að ég verði að vita framhaldið-hvað gerðist- náði hún hurðinni úr lás eða fékk hún hnífinn í bakið!
Yrsa er ágætur lesari líka og eftir að hafa hlustað á hana lesa upp Ég man þig þarf ég auðvitað að fá að vita hvað varð úr þessu ævintýri á Hesteyri, voru þau bara þrjú þar? Einhver óhugnaður lá þar í leyni.
Ævar Örn er ekki sérlega skýrmæltur og þó rauðvínsmarineraður sessunautur minn kallaði til hans og bæði hann að lesa nú hægt og greinilega hafði það lítil áhrif á lesarann. Þessi marineraða hafði nokkur orð um að orð þurfi ekki undirleik, þau eigi að standa sjálf fyrir sínu og hvort sumir höfundar treystu ekki sögunum til að standa einum. Ástæðan fyrir þessum athugasemdum voru að þeir Ragnar og Ævar Örn lásu upp við undirleik jassspilara.
Helgi Ingólfsson las úr Runukrossum og áheyrendur virtust frekar taka kaflanum sem gamanmálum en spennusögu. Þessi framtíðarsýn Helga er sennilega of fjarstæðukennd til að menn sitji alvarlegir undir lestrinum.
Upplestur Óskars Hrafns úr Martröð millanna var yfirstaðinn, og Morgunengill Árna var líka floginn hjá þegar ég kom. En – ég veit að hann er floginn upp á bókasafn og ég þarf að muna að ná í eintakið mitt þangað á morgun.
Ég gerðist lika áskrifandi að Stínu, ég lét mig hafa það þó blaðið kosti heilan, helv. helling. Tvö ung skáld sem ég þekki hafa fengið birtar sögur þarna og ég held að það sé alveg peninganna virði að fylgjast með efninu í þessu tímariti.
Ég upplifi með sem oggulítinn landkönnuð þessa dagana, einu sinni las allt sem ég kom höndum yfir og í dag gengur mér ágættlega að svara prófspurningum um „gömlu“ höfundana. Smátt og smátt hætti ég að lesa, ég staðnaði í bókmenntaáhuganum, og núna er stór ókannaður heimur af sögum og ljóðum sem ég á eftir að kynna mér. Ég ætla að hafa tíma til þess.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli