Það var fámennt á kjörstað í Kópavogsdalnum í dag, skammarlega fámennt. Samkvæmt fréttum hefur kjörsókn á landinu verið frá 20-30% það sem af er degi og það sýnir áhuga Íslendinga á mannréttindum og lýðræði.
Sjálfsagt er betra að sitja á kaffistofunni rekandi upp hvert rammakveinið á fætur öðru um vanhæfni stjórnmálamanna og spillingu en láta til sín taka við að stuðla að virku lýðræði.
Fyrstu kosningar þar sem landið er eitt kjördæmi, persónukjör og tækifæri til að velja þá sem vilja móta framtíðaráherslur okkar. Móta leikreglurnar sem stjórnmála- og embættismenn eiga að fara eftir.
Já, það er sjálfsagt of mikið mál að finna einn eða tvo einstaklinga til að setja á kjörseðil. Mér blöskrar doðinn og kæruleysið.
Mér verður hugsað til frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar frá 1789, hún hefði víst aldrei verið samin á Íslandi okkur hefði ekki fundist málið nógu mikilvægt til að lesa okkur til um það.
Auðvitað veit ég að í Frakklandi þarna um árið voru það velstæðir borgarar sem voru að ybba gogg með þessum afleiðingum en menntunarstig flestra grunnskólagenginna Íslendinga er á pari við borgarastéttina á 18. öld. Vil ég meina.
Þess vegna sé ég ekki að þessi 70% þjóðarinnar hafi neina afsökun aðra en hreina og klára leti. Nema einn sem ég veit að komst ekki vegna vinnu og eins eða tveggja sem voru staddir erlendis. Sjómenn fullyrða líka að utankjörfundarkosning hafi byrjað svo seint að margir hafi ekki getað kosið þess vegna. Vissulega var þessi kosning ekki alltof vel undirbúin. Það hefði passað að kjósa í febrúar en þá hefði auðvitað verið búið að skipuleggja valdablokkir frambjóðenda og lista eins og reynt var að gera núna síðustu daga.
Ég er pirruð út í landa mína núna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli