2. október 2010

Hnútar

Einn ókosturinn sem fylgdi því að vera ekki samferða jafnöldrum sinum í nám var að samanburður á minni getu og þeirra í ákveðnum námsgreinum var alltaf mér i óhag. Ég sannfærðist snemma um að ég væri óhandlaginn klaufi og þegar ég fór að heyra orðið fínhreyfingar í tengslum við þroska barna heimfærði ég það upp á sjálfa mig. Fínhreyfingarnar væru eitthvað ófullburða.  Löngu seinna, eiginlega ekki fyrr en nýlega tengdi ég það við sjálfa mig að þroski barna fylgir aldri þeirra. Þá á ég við hreyfiþroska, hann fylgir ekki getu til að læra lestur, sögu og landafærði. Handavinnufærni mín var sjálfsagt ekkert lakari en jafnaldranna. Þeir voru bara ekki mitt viðmið heldur eldri krakkarnir. 

Þessum ósköpum fylgdu harmkvæli mikil í handavinnutímum, allavega eftir að gamla konan sem kenndi  þremur kynslóðum í sveitinni hætti. Hennar lag við handavinnu kennslu var einfaldlega að allir nemendur af báðum kynjum unni sömu verkin í handavinnu. Öll lærðum við að sauma hin og þessi spor í grófan java, öll lærðum við að gera litla skál úr basti og pappaspjaldi, (min skál varð að mottu) öll gerðum við körfu úr tágum. Svo prjónuðum við líka eitthvað smávegis ef ég man rétt. Mín stykki voru alltaf kauðalegri en hinna, þau stóðust engan sambanburð. 

Þegar gamla konan hætti, og með henni ráðskona sem hafði tekið jafn mikinn þátt í handavinnu kennslunni, hófust hörmungarnar fyrir alvöru. Ég átti að sauma handavinnupoka og ég átti að sauma bakkabönd og prjóna sokka, mamma gerði ekkert af þessu fyrir mig. Ætli hún hafi einhverstaðar heyrt að maður ætti ekki að gera fyrir aðra það sem þeir geta gert sjálfir? Eins og ég hefði nú þegið smá hjálp og hefði þá ekki átt hálfsaumuð bakkabönd og handavinnupoka langt fram á þrítugsaldur. Ekki henti ég áminningunum um klaufaskapinn, ó, nei, ég ætlaði alltaf að klára það sem ég var byrjuð á. Svo tók ég út þroska og henti draslinu.

Næsti skóli bauð upp á áframhaldansi hremmingar og andlegt ofbeldi frá námsskránni. Ég þurfti að sjálfögðu að fylgja handavinnunámsskrá bekkjarins rétt eins og í bóknáminu og sjaldan held ég að ég hafi verið eins glöð og þegar móðursystir mín tók sig til og kláraði útprjónuðu vettlíngana sem ég var að bauka með.  Handavinnukennarinn, já það var sko ekki textílkennari þá bara svona lágklassa handavinnukennari horfði einkennilega á mig en sagði ekki orð þegar ég skilaði vettlingunum af mér. 

Þegar vettlingarnir voru frá tók við harðangur og klaustur, hinar stelpurnar voru voða spenntar fyrir því. En enn þá svitna ég í lófunum og verður óglatt þegar ég sé þannig handavinnu. Reyndar er þetta ljómandi falleg handavinna en ég kemst ekki yfir viðbjóðinn, hann situr fastur í hverri taug. Svo er nóg af öðru skemmtilegu til að gera. Læra þýsku til dæmis og ég prjóna auðveldlega sokka, vettlinga og peysur núna. Hekl lærði ég af ömmu og bókum og orkeringu mestan part af netinu.

Haustið eftir að ég varð 14 ára tók svo þriðji skólinn við mér, langt að heiman. Þar voru líka handavinnukennarar og þeir voru frávik, a.m.k. frá því sem ég hafði vanist. Það byrjaði á tauþrykkingum munsturgerð, batiklitun á hippamussum og vefjupilsum og endaði í hnýtingum. Þetta var ekki handavinna, þetta var bara skemmtun og ég er Messíönnu enn þakklát fyrir kennsluna. 

Við eigum öll einhverjar mælistikur ekki satt? Ég áttaði mig þó smátt og smátt á að bakkabanda- og dúkaútsaumurinn var ekki eina mælistikan sem ég gat mælt mig við.  Þetta var fyrir löngu og nú reyni ég að mæla mig við sjálfa mig, bæði í lengd og breidd. Gengur misjafnlega þó hvað breiddina varðar. 

Árin hafa liðið og nú orðið eru einu hnýtingar sem ég stunda þessir hnútar sem ég hnýti í magann á mér reglulega. 

2 ummæli:

elina sagði...

..er Þýskan eitthvað að böglast fyrir þér ?

Hafrún sagði...

Próf sem ég næ ekki að læra almennilega fyrir bögglast yfirleitt eitthvað fyrir mér.