13. október 2010

Bóklestur

Einn morguninn þegar ég kom á fætur lá bók á eldhúsborðinu, Mannstu mig, heitir hún. Ég mátti auðvitað ekki vera að því að lesa daginn þann en ég kíkti nú samt aðeins og á sunnudaginn las ég hana svo nokkurnveginn í einum rikk.
Þetta var allt í lagi öskubuskurómans með tilheyrandi fléttu, risi og öllu sem nöfnum tjáir að nefna. Allt eftir formúlunni og endirinn líka. Reyndar hélt ég að höfundurinn hefði fest sig í Birgit Jones týpunni og var farin að fá aulahroll á hrygglengjuna eftir nokkarar síður en sem betur fer losnaði hún út úr því fljótlega. Það væri gaman að stúdera þessa blessaða sögu almennilega, ég nenni því bara ekki núna.

Fyrir áratugnum síðan las ég allt sem kjafti kom, eftir hvern sem var. Einar Kvaran, Jón Trausti, Guðmundur Hagalín, Mc Lean, Desmond Bagley, Theresu Charles og allt þar á milli. Allt nema Barböru Cartland, þar setti ég mörkin strax á annari eða þriðju bók því þá sá ég að andlegt heilbrigði mínu væir hætta búin af Barböru Cartland. Þá var ég farin að lifa mig virkilega inn í sögurnar og leitaði í þeim allra leiða til að myrða kvennsöguhetjuna.
Ég man hvað mig langaði óskaplega til að drekkja einni þeirra í einhverri á sem hún átti leið yfir. Auðvitað mátti samt ekki leggja frá sér half lesna bók. Það jaðraði við helgispjöll, sama hversu vitlaus hún var.
Ástarsögur hafa breyst, og þó, ætli það sér ekki réttara að segja að sögupersónurnar hafi breyst, sem betur fer. Flestar ganga þær enn út á sama plottið, öskubusku- og prinsasyndromið.  Ætli það hafi verið skrifðar lesbíu- eða homma ástarsögur, ég meina svona gamaldags rómansar fyrir homma eða lesbíur? Eða ætli þessi óhefðbundna rómantík sé bara í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum? 
Talandi um kvikmyndir,  Laura Craft skaut elskhugann í þessari einu Tomb Rider mynd sem ég sá. Fyrir 20 til 30 árum hefði þannig endir verið óhugsandi. Góð kona var nefnilega alltaf fær um að gera skúrkinn að betri manni bara með því að sýna fórnfúst píslarvætti. Ég er hrifin af Lauru Craft endinum.  
Núna er nóttin að skella á, það er orðið of framorðið til að byrja á bók en ég ætla samt að sækja Bókmennta- og kratöflubökufélagið út í bíl og byrja á því. Ég iðka sjálfsblekkingar af miklum móð og trúi því að ég geti lokað henni eftir svona hálftíma. Ég sem gat ekki einu sinni lagt frá mér Sögur herlæknisins hálflesnar hérna um árið!
Íslenska eða bókmenntir?

1 ummæli:

elina sagði...

bæði....