14. október 2010

Hægindi

Þetta er heimili á tveimur hæðum, ja allavega einni og hálfri, og á þessum tveimur hæðum eru sófar með sæti fyrir átta manns. Þar til viðbótar eru nokkrir stólar, misgóðir og svo vinnustóllinn minn.  Það hefur nú komið í ljós eftir viðamiklar rannsóknir kattarins á heimilinu að þessi stóll er besta hægindið og þess þarf ég að gjalda.

Ég þarf að byrja á því á morgnana þegar ég ætla að setjast með kaffibollann minn framan við netmiðlana að lyfta prinsinum  upp úr stólnum því ekki rek ég hann burtu með harðri hendi. Nei, ég lyfti honum blíðlega yfir i sófa og held ræður um mjúka púða og mikið pláss. Hann gefur frá sér mótmæla murr, stekkur niður á gólf og gengur með stýrið sperrt út um sérinnganginn sinn og sést ekki næsta hálftímann.  Þar með fæ ég stundarfrið við vinnuborðið.

Það eru takmörk fyrir því hvað ég get setið lengi án matar og drykkjar svo ég þarf að fara á efri hæðina annað slagið og sinna grunnþörfunum. Það þarf enginn að fara í grafgötur með það hver er kominn i stólinn þegar ég ætla að fara að sinna vinnunni eða náminu aftur. Þetta er farið að minna á kaldastríðið og ég stefni á að byggja minn Múr kringum stólinn.  Svo er spurning um að ráða einhvern í landamæravörslu.

Annars braut ég 14. boðorðið í dag og kíkti á Facebook, ég ætlaði að benda fólki á síðustu undirskriftarsöfnun Amnesty  en þegar til kom fann ég ekki Facebook síðuna þeirra. Ætli ég hafi ekki bara gleymt mér í öðrum bollaleggingum.

Ég renndi aðvitað yfir síðustu stöðulínur og sá að ég þarf að bæta 7 tímum á viku inn í tölfræðina fyrir Hjúkkuneman en ég áætla að það sé sá tími sem hún eyðir á Facebook, Þá á hún bara 18 tímum óráðstafað pr. viku. Ég sá að einhver fjölskylda er með magapest og ferðafélagi minn er hættur á Bókinni, en setur samt inn fréttalinka af miklum móð. Ég sá líka sitthvað fleira sem sannfærði mig um að mig varðaði svo sem ekki um neitt af þessu. Alveg þangað til ég sá myndirnar hennar Evu, eða voru þær frá Ernu? Þær minntu mig á að ég ætlaði að blogga um myndlistarsýningu sem ég fór á á laugardaginn.

Já, ég gerðist menningarleg með meira móti og fór á sýninguna hennar Ernu G. Sigurðar , þar sprangaði ég um með spekingssvip og hvítvínsglas í hendi og þóttist hafa vit á list. Svo hætti ég að þykjast hafa vit á list og fór bara að horfa á það sem var á veggjunum. Erna er og hefur verið undanfarið að vinna með ljósmyndir. Hún tekur myndir og tekur svo aftur mynd af myndum, kannski oftar en einu sinni. Það er ekki gott að vita hvað er mynd af augnablikinu og hvað er mynd af mynd af augnablikinu. Þetta er skemmtileg nálgun á núið eða það sem var einhvern tíma núið.

Þessar myndir eru allar teknar á síðasta ári, margar á Austurvelli, þar logar eldur, Alþingshúsið er útatað í bleikum slettum, einbeitt augnaráð lögreglukonu hvikar ekki undir hjálminum og hróp mótmælenda eru fryst af myndvélarlinsu. Aðrar myndir eru teknar við ýmis tækifæri, súkkulaði terta með jarðaberi, sjúkrarúm speglast í glugga, regnbogið rammar inn umferðina og stakur útsprunginn fífill fyllir myndflötinn. Sömu myndir myndaðar aftur og aftur verða óskýrari og hreyfðari við hverja myndatöku. Myndavélin fer með myndirnar eins og tíminn með minninguna.  

Eitthvað við þetta yfirlit listamannsins af viðburðum síðasta árs hreyfðu við mér og ég stóð lengi framan við vegginn og horfið af einni mynd af aðra. Kyrrar myndir á vegg minntu á snöggu brotaklippurnar í kvikmyndunum.

Þarna eru líka málverk, einföld línuteikning í þeim öllum. Það sem greip mig helst þar var myndin af fjölfölduðum baksvip styttunnar af Jóni Sigurðssyni sem kallaðist á við mynd af baksvip mótmælanda. Bara útínur á einlitum fleti. 

Rýmið sem sýningin er í fer vel með sýningu eins og þessa, hátt til lofts og hvítur í hólf og gólf gefur tilfinningu fyrir tómarúmi sem myndirnar svífa í óháðar umgjörðinni.

Engin ummæli: