12. október 2010

„Hillir uppi öldufalda“

Ég staldraði við efst í stiganum í morgun þegar ég áttaði mig á því að ég hafði hlaupið upp hann og ekki í fyrsta skiptið á þessum drottins degi. Þetta er mjög athyglisverður ferðamáti milli hæða hér á bæ.
 Þeir eru nefnilega miklu fleiri dagarnir hér sem ég hef þurft að stoppa í miðjum stiga og safna kröftum fyrir seinni helminginn. Jamm, það eru allt of margir þannig dagar í árinu og þá þarf ég yfirleitt að styðja mig við veggina til að hafa mig upp um hvert þrep. Þetta eru átta þrep í allt, það er frekar lágt til lofts í kjallaranu, kannski sem betur fer.

Er á meðan er, lífið er í uppsveiflu og ég ætla bara að njóta þess á meðan það varir. Annars hef ég alltaf haft tilhneigingu til að fá vægar, ja, segjum misvægar uppsveiflur í geðslaginu annað slagið og byrja þá yfirleitt á 5-10 hlutum á sama tíma og klára auðvitað engan.

Ég minni sjálfa mig stundum á ömmubróðir minn sem tók köst sem auðvitað mátti ekki ræða um, en þessi köst hans eins og við krakkarnir kölluðum það entust í 1-2 mánuði eftir efnum og aðstæðum. Honum datt ýmislegt í hug í þessum köstum sínum og afkastaði oft óhemju miklu. Eftir því sem hann eltist minnkaði þó verkvitið hjá honum í uppsveiflunum og oft var lítil brú í þvi sem hann var að bardúsa. Ekki efast ég samt um að honum hefur fundist full skynsemi í allri sinni hegðun alveg þangað til fór að brá af honum og hann lenti ofan í öldudalnum. 

Gamall bóndi af Norðurlandi var líka fastagestur í höfuðborginni um árabil. Hann þjáðist af svipuðum köstum og hann ömmubróðir minn. Þessi bóndi var líka afkastamikill á yngir árum og smíðaði meðal annars rafstöðvar fyrir vatnsaflsvirkjanir, smávirkjanir auðvitað ekki svona Kárahnjúkavirkjanir. Þegar hann blessaður karlinn fór að koma í bæinn í köstunum sínum var það yfirleitt til að valsa um í bankakerfinu til að fá fyrirgreiðslu fyrir stórframkvæmdum. Hann vildi virkja stórt og fara í almennilega jarðvegsvinnu. Til þess þurfti hann nokkuð marga vörubíla og jarðýtur.
Hann vílað það ekki fyrir sér að koma á puttanum í bæinn og svaf úti ef því var að skipta. Hans tími var á vorin, í gróandanum, og þeirra beggja reyndar, ætli það sé ekki eitthvað í vorinu sem startar uppsveiflu.
Síðasta skipti sem ég hitti þennan gamla bónda skrúbbaði ég af honum þykkt lag af neftóbaki og öðrum uppsöfnuðum óhreinindum og skutlaði honum svo niður á geðdeild, þá var farið að draga af honum og hann var tilbúinn að hvila sig. Hann sagði mér frá því að ég hefði verið vön að taka hádegisblundinn minn á bekknum ofan við hann pabba hans sem var líka vanur að leggja sig eftir matinn. Svo hefði ég stundum tekið síðdegisblund á túninu hjá henni Rós. Rós var svört og hvít kýr og ég var tveggja ára.
Þó ég muni ekki eftir henni Rós man ég eftir því hvað það er hlýtt, traust og notalegt að leggja vangann upp að jórtrandi kú meðan maður mjólkar, ætli þá öryggiskennd megi ekki rekja til bernskuminninga um síðdegisblundi á norðlensku túni. 


Þessum tveimur mönnum voru allir vegir færir þegar þeir voru í uppsveiflu, ég læt mér nægja að hlaupa upp stigann, plana meira nám, prjóna sokka, hekla blóm og orkera, allt á sama tíma, en þeir hugsuð stórt. Annar var mest í virkjunum, byggingum og akuryrkju, hinum datt í hug eiginlega allt milli himins og jarðar. Einu sinn stúderaði hann  frystikistu heimilisins til að komast að því hvernig hún væri saman sett, sá hinn sami gat líka setið úti á stjörnubjörtum vetrarkvöldum með systurdætrum sínum og bent þeim á hvar og hvernær gerfitunglin væru sjáanleg á himninum ofan við bæinn. Ömmubróðir dugði ekki að framkvæma hann vildi líka lesa og læra og kannski hefði hann getað það ef þessi veikindi hefðu ekki slegið hann út úr norminu fyrir tvítugt.
Virkjanamaðurinn átti konu og börn sem hann olli ómældum erfiðleikum og sársauka í hverju kast. Þau voru orðin sérfræðingar í sjálfræðissviptingum, hann var orðinn sérfræðingur i lagakrókum til að koma í veg fyrir sviptingarnar.

Í uppsveiflum liður fólki vel og  því eru allir vegir færir. Ég get ekki beint álasað mönnum fyrir að vilja ekki láta draga sig niður á flatneskjuna mig rennir grun í vellíðanina sem fylgir því að berast á öldufaldinum.


Jæja, ég ætlaði að skrifa um rannsóknir mínar á námskeiðsframboði HÍ en endaði í geðhvörfum, sennilega var eitthvað af því endurtekið efni.
Ég hef á tilfinningunni að ég sé að endurtaka mig nokkuð oft orðið. Ellimörk býst ég við.

Engin ummæli: