30. september 2010

Leitar að einbeitingunni

Merkiskona sem ég þekki þarf alltaf að bíða eftir sálinni þegar hún kemur heim úr langferðum. Það er vegna þess að þegar við förum hratt yfir mörg tímabelti nær sálin ekki að fylgja með. Sálin er nefnileg tengd náttúrunni en ekki tækninni og ferðast ekki á þotuhraða. Ég veit ekki hvaðan þessi skilgreining er komin en efast ekki um að hún sé rétt. Þeir sem ekki þekkja hana hafa kallað þetta þotuþreytu ef ég man rétt.
Ég er alltaf að reka mig á að fleiri eiginleikar mannsandans eru sjálfstæðar einingar og fylgja ekki hýslinum í öllum málum. Til dæmis vakna ég oft á morgnana á einbeitingarinnar, suma daga vill hún sofa fram yfir hádegi. Stundum sefur hún allan daginn og ég kann engin ráð til að vekja hana.
Hugsa sér, ef ég væri að nota Facebook hefði ég þurft að láta fyrirsögnina nægja. Það hefði verð algerlega ófullnægjandi!


Tschüs

Engin ummæli: