Mér verður bumbult af því að keyra í þoku. Þoku sem er svo þykk að ég sé bara næstu stik og bíllinn mjakast áfram löturhægt meðan þokan iðar og byltist fyrir framan mig á veginum. Reyndar var það snjóiða á Fagradalnum í vetur sem olli því að ég endað með hausinn í hríðinni utan við bílgluggann og ældi, undan vindi sem betur fer.
Apríldaginn þann var veðrið í eins og sviðsetning á bókarkafla í Harmi englanna, eða er það öfugt, rangan út eða rangan á réttunni eða...? Í kvöld var þokan þykk á Öxinni og maginn í mér er hálfur á röngunni. Ég afsaka mig allavega með því þegar ég horfi á blaðið við hliðina á mér og nenni ekki að læra það sem stendur þar. Ekki það að ég held að ég muni þetta allt saman, þversögn er ein tegun andstæðna, vísun er visun í eitthvað, það er ekkert flókið við það. Já, ég held bara að ég geti sleppt þessari upprifjun. Þá er það bara að leggja á minnið orðin til að lýsa töfraraunsæi, allegoriu, furðusögu, og grótesku eða hvað það nú heitir allt saman.
Ég skrapp aðeins á Héraðið í dag og ætlaði að bíða í lerkilundi á meðan hjónin á bænum færu í kaupstað. Ég beið, tíndi sveppi, hlustaði á íslenskufyrirlestur en svo var mér boðið á Seyðisfjörð.
Þrátt fyrir að hafa alið aldur minn á þessu svæði í nærri 30 ár eða frá fimm til þrjátíu og eitthvað ára, átti ég eftir að heimsækja fjörðinn þann svo ég sagði auðvitað já. Þar af leiðandi lærði ég minna en ég ætlaði mér en tók fullt af myndum sem ég ætlaði mér ekki að gera þegar ég vaknaði í morgun.
Seyðisfjörðurinn var hálffullur af þoku en þvi miður náði skugginn af mér ekki alla leið út á fjörð.
Blóm og sveppir skreyttu héraðið og ég er afskaplega sátt við myndatökur dagsins, fókusinn á vélinni var alveg til friðs núna. Það þarf stundum lítð til að gleðja mig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli