25. september 2010

Andríki eða málæði

Ég get verið andrík með afbrigðum, tvisvar á sólahring. Um það leyti sem ég er að sofana á kvöldin flæða frjóar hugsanir í gegnum kollinn á mér og hverfa svo inn í nóttina. Hvort allar þessar snilldar hugmyndir virka svona skemmtilegar af því hugurinn er að skríða inn í draumalandið og rökhugsunin hverfur fyrst úr meðvitundinni veit ég ekki. Mér finnst það þó ekki ólíklegt.

Hinn andríki tími sólahringsins er þegar ég er í aðlögun fyrir daginn. Aðlögun hversdagsins felst í því að vefja sænginni þétt utan um sig og fresta fótaferð þegar ég losa svefninn á morgnana. Ég er steinhætt að geta sofið í 12 tíma.
Ég átti svona augnablik í morgun meðan rokið og rigningin gáfu mér sífellt lengri aðlögunartíma. Þá fór ég að hugsa um Facebook og blogg. Ég er ekki frá því að ég hafi verið að setja saman færslu fyrir annað atriðið um hitt, í huganum auðvitað. Ég er búin að gleyma megninu af því.

Vitsuga var samt eitt af þeim orðum sem voru að veltast fyrir mér í morgun. Þetta fína orð er komið úr Harry Potter og vitsugur eru aldendis óskyldar orkusugunum í Blíðfinni. Samt er hugmyndin svipuð.

Facebook er nokkurskonar vitsuga en líka vitleysissuga. Þegar Facebook kom til sögunnar hurfu bloggararnir smátt og smátt af sjónarsviðinu. Ég átti fullt af bloggvinum sem að vísu vissu ekki allri af vináttunni enda las ég bara það sem þeir skrifuðu og hafði gaman af. Ég er ekkert viss um að mér hefði líkað við allt þetta fólk í raunheimi. Svo byrjaði Facebookin að soga vitið úr blogginu og á mörg þeirra hefur ekki komið færsla í marga mánuði.

Þarna fór rithöfundur sem skrifaði oft skemmtilega pistla. Hún skrifaði líka skemmtilega pistla um alvarleg mál, eða á ég ekki frekar að segja áhugaverða. Það er álíka gáfulegt að nota orðið skemmtilegt um fréttir af lífshættulegum sjúkdómum og jarðafarir. En hver hefur svo sem ekki farið í skemmtilega jarðaför. (ég panta skemmtiatriði í mína)

Þarna hvarf upprennandi rithöfundur og ljóðskáld sem hafði gaman af að raða orðum upp í nýtt samhengi. Kvennbóndi norður í landi, hún lenti að vísu í tilfinningakreppu og fór fyrst að nota bloggið í staðinn fyrir viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, hætti svo.
Dóttir vinkonu minnar stofnaði litla fjölskyldu sem stækkaði smátt og smátt. Ég kíkti einu sinni eða tvisvar á ári, bara til að fylgjast með vexti og viðgangi fjölskyldunnar. Svo hurfu þau inn á Facebook og ég nenni ekki að eltast við þau þar.

Facebook sogaði sem sagt mína vitrænu bloggara út úr bloggheimi og það hefur tekið mig langan tíma að finna aðra.

Mér finnst blogglandslagið hafa breyst, flestir pistlaritarar sem ég les nú orðið eru svona, hvað á ég að segja, opinberar fígúrur sem skrifa mest fréttatengda pistla. Einstaka bloggari skrifar óháð fréttastraumunum, persónulega og oft einlæga pistla um allt milli himins og jarðar. Það er besti lesturinn. 

Stundum er ég sammála fólki, stundum ekki. Ég er að læra að sætta mig við það. Maður þarf nefnilega að læra á mannleg samskipti í netheimum líka. Jú, maður les færslu eftir einhverja bláókunnuga persónu og er henni svo hjartanlega sammála. Þetta var bara eins og talað út úr mínum munni og maður finnur til samkenndar og tengsla við viðkomandi. Svo- manni til mikillar skelfingar kemur þessi netvinur manns er kannski, ja hvað á ég að taka sem dæmi, gallhraður sjálfstæðismaður! Og ég þarf að fara að skoða sjálfa mig og segja, -Sjáðu nú til, það er fullt af sjálfstæðismönnum sem er ágætis fólk og þú verður að vara þig á að búa ekki til óraunhæfar ímyndir af fólki eftir að hafa lesið einn eða tvo bloggpistla- Þetta á auðvitað líka við um fíflin sem verða til í huganum líka þegar é les eitthvað sem ég dæmi bull og viðkomandi bloggritara eftir því.

Stundum les ég pistla sem mig langar til að gera athugaemdir við, oftast þegar ég er sammála viðkomandi og læt það stundum eftir mér. Miklu oftar skrifa ég komment sem ég hendi svo eftir yfirlestur. Ég hef nefnilega rekið mig á það að meinleysislegustu orð má misskilja og taka ósinnt upp og á prenti er erfitt að leiðrétta mistúlkun. Þess vegna skrifa ég sjaldan komment og þá með hálfum huga. Nema auðvitað hjá Hjúkrunarnemanum enda búin að þekkja hana í 30 ár og vön því að hún misskilji mig.  
 Lengi skal manninn reyna og sjálfan sig líka. Það er kannski vissara að taka það fram að ekkert nýlegt atvik eða lestur kallaði á þessa sjálfsskoðun.

Svo er ég, eins og venjulega komin óskipulega langt frá upphaflega málefninu. Ekki furða þó íslenskukennarinn minn gerði athugasemdir í vor við svona útundanhlaup. Hann varð nú sáttari við mig í síðasta áfanga. Ef ég hefði vandað mig aðeins meira við tilvísanirnar hefði ég náð 10 fyrir Brekkukotsannálsritgerðina. Jamm ég er montin af því, ég má alveg vera það. Það er góð tilfinning í haustlægðunum.

Ég ætlaði nefnilega líka  að skrifa um gagnið sem Facebook gerði með því að soga til sin gelgjurnar og meðferðarbloggarana. Auðvitað á maður alltaf val og ég bakkaði voðalega fljótt út úr lestri á pistlum nýskilinna kvenna sem tjáðu sig um píslarvættið sem þær lifðu í. Já, sem og öðrum píslarvættis bloggum. Sumir skrifa nefnilega einlæga persónulega táningu uppfulla af húmorslausu píslarvætti. Stundum meira að segja undir svona „duló“ hjúp.

Flest eru þau komin inn á Facebook og það er fínt. Gelgjurnar mínar eru Facebookvinir mínir en ég get valið um að sjá stöuppfærslur og loka á þau flest. Mér finnst fínt að eiga unga ættingja að vinum þarna inni ef ég þarf að senda þeim skilaboð t.d. í tenglum við ættarmót en mér er svo sem alveg sama hvernig Jón eða Gunna höguðu sér á síðasta balli eða hver er í sambandi með hverju og hvort það er fólkið.

Facebook vinavefurinn er svo auðvitað kafli út af fyrir sig og ég sæti við í allan dag ef ég ætlaði að skrifa úttekt á henni. Hún er stórmerkilegt fyrirbrigði út frá samskiptakenningum félagsfræðinnar og ég væri til í að taka þar eins og eina rannsókn.

Þarna þekki ég til dæmis góða konu sem dembir inn aðskiljanlegustu tenglum á stórmerkileg mál. Hún auðvitað tjáir sig ekkert um þau enda ekki pláss fyrir það á Facebook, bendir bara á umfjöllun og skoðanir annara. Svo dettur alveg af henni andlitið þegar hún kemst að því að við höfum bara engan áhuga á að sitja fyrir framan tölvuna og lesa margra blaðsíðna heimspekiritgerðir eða allt það sem henni dettur í huga að benda á. Hún er farina ð setja inn stöðulínur þegar hún er inn á öræfum.

Þarna á ég góða vinkonu sem segir öllum helst oft á dag hvað hún er að gera, líka þegar hún situr á slysó (já ég má segja það hér), ég hef svo sem dottið í þennan gírinn sjálf á góðum dögum.  Svo eru þeir sem setja inn duló statuslínurnar. „Fékk tölvupóst í gær, spennandi hlutir framundan“ Svo eru þeir sem þurfa að vera yfirlætisfullir og háðskir og.. Já og allir hinir. Ég er hætt þessu áður en bloggið sogar úr mér allt vit.

3 ummæli:

Harpa sagði...

Ég er ofboðslega þakklát fyrir bloggara eins og þig og nokkra fleiri sem skrifa um líf, líðan og annað sem skiptir máli. Og ekki spillir að hafa áreynslulausan húmor, eins og þú.

Þessi færsla um blogg og fésbók er mjög góð.

Hafrún sagði...

Takk Harpa :)

Hafrún sagði...

(Svo ég kommenti nú meira sjálf á færslurnar mínar).

Ég ætlaði að segja takk sömuleiðis áðan.
Ég renndi yfir síðustu færslu og mér blöskrar alveg innsláttarvillurnar. Ég hefði verið alveg stórhneyksluð ef enhver annar hefði látið svona frá sér.
En ég bara jafn innilega velvirðingar og útrásarvíkingur en ég ætla samt ekki að laga þetta. Leti er mottó dagsins.