26. september 2010

Raddir

Vinkona mín veit næstum því allt um aðra hlið geðrænna vandamála og það sem hún veit ekki núna ætlar hún að læra í HÍ á næstu fjórum árum. Ja, þetta voru ýkur en hún veit ýmislegt um umönnun geðsjúkra og af henni hef ég lært helling og sá hellingur felst aðallega í því að vita að ég veit ekki neitt. Hún bætir þó úr þessari fáfræði stöku sinnum og einu sinni fékk ég fyrirlestur um ákveðna kenningu um raddirnar sem sumir heyra. Þessi kenning er í stuttu máli sú að allir heyra raddir.Ekki bara sumir! Hmm. Já, fólk trúir þeim bara misjafnlega vel.

Ég veit að þið látið það ekki fara lengra þó ég trúi ykkkur fyrir því að ég er búin að heyra raddir, ég meina rödd, undanfarinn hálftíma eða svo. Og ekki bara rödd heldur undirleik lika og þetta hljómar svo sannfærandi að ég trúi henni alveg, röddinni sko. Hún syngur skýrt og greinilega „Það má ekki pissa bak við hurð og ekki henda grjóti ofan i skurð“  Hún syngur miklu meira en ég læt þetta brot úr textanum duga sem sýnishorn.

Þessi rödd er af orginal plötunni sem mig minnir heita „Með stjörnur i skónum“ og ég eignaðst aldrei þó mig langaði mikið í hana. Það hafa ekki nema tvær útgáfur af þessu lagi verið settar inn á You tube og af þvi ég vil endilega deila með ykkur röddinni minni set ég aðra þeirra inn hér. Þetta er að visu Jónsi og hann hljómar ekki alveg eins og það sem ég heyri en ég get  ekki gert betur.

Annars hefur mér stundum verið hugsað til þessa fræðslu erindis Hjúkrunarfræðinemans þegar ég hef hrokkið við og horft i kringum eftir þeim sem kallar á mig. Einhverstaðar í rafboðunum í heilanum leynist sennilega smá neisti af gömlum hljóðum sem koma stundum líkt og ómur úr fjarlægð. Stundum heyri ég nafnið mitt  og stundum bara „mamma“. Þetta heiladót er stórbrotið verkfæri.  Mér hefur nú samt aldrei dottið í hug að ég sé að upplifa vitrun og enn hefur enginn sagt mér að fara og brenna ókristilegum bókum.

Við svofelld annarleg orð,
sem einhver rödd lætur falla
á vorn veg - eða að því er virðist
vindurinn blæs gegnum strætin,

Já ef þetta er ekki um að heyra raddir þá veit ég ekki hvað.

Ég alveg sverða, eins og konan orðar það stundum, að ég var ekki í neinu hugsanasambandi við aðra konu á öðrum stað sem skrifaði líka um að heyra raddir.
Hláleg tilviljun samt.












Engin ummæli: