9. júlí 2010

Við verklok

Eins og tunglskins blettir akrar blika

við blárri grund

og ljósgrá móða leitin bakkafyllir

og lægð og sund,

og neðst í austri gylltar stjörnur glitra

í gegnum skóg:

Þá sit ég úti undir húsgafli

í aftanró.

Því hjarta mitt er fullt af hvíld og fögnuð,

af frið mín sál-

Þá finnst mér aðeins yndi, blíða, fegurð

sé alheims mál-

og allir hlutir biðji bænum mínum

og blessi mig-

við nætur gæsku-hjartað jörð og himinn

að hvíli sig.

En þegar hinst er allur dagur úti

og upp gerð skil,

og hvað sem kaupið veröld kann að virða,

sem vann ég til:

Í slíkri ró ég kysi mér að kveða

eins klökkan brag,

og rétta heimi að síðstu sáttarhendi

um sólarlag.

Stephan G. Stephansson

Engin ummæli: