1. júlí 2010

,,Mér leiðast svo

eldhúsverkin, ég veit ei verra neitt en eldhúsverkin" hljómaði á öldum ljósvakans einhverntíma fyrir löngu og þetta er það eina sem ég man úr þeim texta enda get ég yfirleitt tekið undir þessa línu.
Það er þó eitt sem mér leiðist meira en eldhúsverkin og það eru ofurduglega fólkið sem er svo iðið í eldhúsinu og enn þá iðnara við að segja okkur frá því á facebook! Við öll möguleg og ómöguleg tækifæri eru sumir eins og afkastamiklir sjónvarpskokkar. Og segja okkur hinum frá því þegar 18. sortin fer í ofninn fyrir jól, þegar veisla fyrir 30 manns er hrist fram úr erminni á stuttermabolnum og hvernig sveppirnir voru fylltir, bernessósan var gerð klár og nautasteikin grilluð í sumarbústaðaferðinni.
Samt finnst mér gaman að lesa matarblogg. Ragnar Freyr er í uppáhaldi, Cafe Sigrún líka og svo rakst ég á þessa hérna í dag. Svo koma þeir dagar sem mér leiðast ekki eldhúsverkin og missi mig í eldamennsku.
Af illri nauðsyn byrjaði ég að vinna í eldhúsinu í dag og þegar ég var komin af stað datt í inn í hömlulausa eldamennsku. Kjúklingurinn sem ég keypti í Krónunni í fyrradag var kominn á síðasta söludag (ég gleymdi að athuga dagsetninguna) og ég varð að henda honum í pott áður en hann úldnaði. Kosturinn við kjúklingasúpuna mína er sá að kjúklingurinn er soðinn i heilu lagi í súpunni og svo má henda öllu saman í pottinum inn í ískáp og geyma til morguns. Rabbabarinn sem yngra afkvæmið plataði mig til að taka upp á leigulóðinni sinni var að þorna upp og það var ekki um annað að ræða en hreinsa hann upp, henda svo inn í ofn þangað til hann var hæfilega mjúkur fyrir hakkavélina. Svo þurfti ég auðvitað að sjóða sultu úr hluta af honum, restin fer í frysti.
Risberin sem í haust fóru í frystikistuna hjá Ofvirka Tilvonandi Hjúkrunarnemanum Fyrrverandi Kennaranemanum, Núverandi Sjúkraliðanum (þetta er sko hrein stæling á nafngiftum hennar á
vinum og vandamönnum) voru farin að þiðna þar sem hún var búin að taka frystikistuna úr sambandi og græja hana til flutnings. Ég kom þeim ekki í frystiskápinn á mínu heimili svo það var ekki um annað að ræða en henda þeim í pott, hrásykri yfir og sjóða í jukk.





Í þessu súpu-sultu eldhúsi bjó ég mér svo
til rauðrófu og ananssalat. Það var haft í kvöldmatinn seint og um síðir og var svo fallegt á litin að ég ákvað að skella af einni mynd. Það er nefnilega ekkert gaman að matarbloggi sem ekki er myndskreytt.
Smátt brytjaður ferskur ananas, létt soðin eða bökuð rauðrófa, brytjað og sett í lögum í skál. Það má helst ekki hræra því þá lítur ananasinn út eins og maður hafi skorið sig til blóðs við að brytja hann.
Ég held að mér batni rauðrófufíknin seint.

Þá er ég búin að grobba mig af dugnaði kvöldsins og sjá að ég er ekki efni í matarbloggara. Til þess er ég of löt, ég hef bara gaman af að taka skrýtnar myndir í eldhúsinu. Og næst þegar ég sit yfir bloggi fram á rauða nótt ætla ég að læra að setja texta við myndirnar. Kannski ég geti sett hann inn á myndirnar áður en ég set þær út á netið.

Æ, svo er þarna einhverstaðar i þar sem á að vera y en ég finn það ekki núna til að leiðrétta.

Engin ummæli: