Mér bauðst far inn í Bása á föstudagskvöldið og þó ég ætti að liggja heima í rúmi enda búin að vera heima vegna veikinda allan daginn stóðst ég ekki mátið. Ég henti í snarhasti hinu og þessu dóti saman í hrúgu og tróð mér inn í bílinn hjá Fararstjórakonunni sem bauð mér með.
Í Básum er þykkt öskulag í felum undir gróskumikilli elftingu. Það kom ekki að sök fyrsta kvöldið en mér brá óneitanlega aðeins þegar ég var búin að nota birkihríslurnar sem fatahengi og áttaði mig á að það var þykk öskuskóf ofan á öllum láréttu greinunum.
Ég var með einhverjar væntingar um að tína mér birkilauf til að eiga vetrarforða af birkite en ég hætti snarlega við það þegar ég þreifaði á nokkrum blöðum. Nýlaufgað birki er límkennt og askan hefur fengið góða viðloðun þar.
Vindsæng, góður svefnpoki, bívak og hljóðbækur á MP3 spilara urðu til þess að ég var nærri því komin með legusár á laugardagskvöldið. Ég hefði líka alveg verið tilbúin til að fara heim eftir grillið það kvöld en svona er að vera ekki á eigin bíl og nú er ég búin að reyna hvernig er að sofa í bívak í rigningu. Á sunnudagsmorgun var ég líka búin að fá mig fullsadda af ösku, bæði í rigningu og þurrru veðri. Ég vildi ekki vera á ferð á þessu svæði þegar hreyfir vind. Við stoppuðum aðeins við lónið fyrrverandi og þarf blésu öskustrókar um allt. Bara viðbjóður.
Það er verst að ég tók enga mynd af leguplássinu en ég á eina frá því í fyrra sumar og fyrir utan umhverfið og eggjabakkadínuna var þetta ósköp svipað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli