9. júlí 2010

Hlývindi

Stephan G. Stephansson er viðfangsefni næsta íslenskuáfanga og mér leiðist það ekki. Þegar ég var einkennilegur krakki og las gömlu skólaljóðin aftur og aftur mér til skemmtunar ásamt öðrum ljóðum sem ég komst í og hafði smekki fyrir allt eftir aldri og þroska höfðuðu ýmis ljóð Stephans G. til mín. Ég var aftur á móti lítið að spá í höfunda, ég bara las. Með hækkandi aldri og vonandi auknum þroska fór ég að leggja nöfn höfundanna á minnið og gera greinarmun á stíl og efnistökum þeirra. Þegar ég svo rakst á kvæðið Verklok í Morgunblaðinu fyrir mörgum árum skrifaði ég það upp, prentaði út og hengdi fyrir ofan skrifborðið mitt. Það er enn til uppskrfað í tölvunni hjá mér.
Það er og hefur ýmislegt margt og misjafnt verið sagt um Moggann, sumu er ég sammála öðru ekki en ég er þó þakklát fyrir öll þau ljóð sem ég hef lesið þar í gegnum árin. Ætli Morgunblaðið birti enn þá ljóð eða er menningartengda efnið þar einskorðað við tísku, mat og þess háttar lífsstíl eins og í Fréttablaðinu.

Frá ljóðum í vinnu sem er ekki nærri því eins skemmtileg. Ég lofaði afleysingum í eldhúsinu í dag og ég get ekki sagt að ég hlakki til. Ég vissi að það yrði ekki hlaupið að því að vinna í 130% vinnu í sumar en mér fannst ég bara ekki geta hafnað góðu boði. Ég losna í síðasta lagi í lok júlí og nú tel ég bara niður því þó bókhald og móttökustarf sé ekki mjög erfitt líkamlega eru samt liðamót í höndum og fótum orðin aum og ég er síþreytt. Svo sé ég aldrei fram úr því sem ég þarf að gera og er komin með stress hnút í magann yfir náminu á haustönn. Dagskráin verður ansi stíf, hver áfangi bara 4 til 6 vikur og 3. tungumál, 4 með íslensku. Allt hvað öðru skemmtilegra, ég vildi bara hafa betri tíma fyrir hvert fag.
En vonandi verður blóðbergstínsla í dag og þá ætla ég að skilja vinnu og skóla eftir á malbikinu.

Engin ummæli: