Það leynir sér ekki að tími maraþonhlaupanna er runnin upp. Á lognbjörtum sólskinsmorgni í miðjum júlí mánuði skokka sveittir og sólbrúnir hlauparar eftir göngustígnum. Stakur göngumaður sem lötrar áfram með aðra hendina í vasanum og kíkir á leið sinni inn í runna og á steina í fjöruborðinu stingur í stúf við skokkarana. Án hans væri morguninn eins og auglýsing frá ungmannafélagi, auglýsing um heilbrigða sál í hraustum líkama.
Vogurinn er spegilsléttur, vindgárurnar frá flóanum teygja sig inn eftir honum en verða að láta í minni pokann fyrir lognstillunni. Handan vogsins ber bláan Keili yfir hvítar kassalaga nýbyggingarnar sem teygja sig á tá í árangurslausum tilraunum til að skyggja á höfðingjann. ,,Hundaþúfa hreykti kamb, hróðug mjög með þurradramb...." hugsar göngumaður og gleðst yfir því að byggingarverktökunum tókst ekki að eyðileggja alla fjallasýn.
Grábröndóttur fressköttur kannar morgunlyktina og tekur kveðju göngumannsins af tortryggni, sættist þó við hann þegar lyktin af heimiliskettinum staðfestir að sá tvífætti sé meinleysis grey og gráni þyggur þakksamlega baknudd og klór áður en við kveðjumst. Nágranni hans sem kannar veiðlendur fjörunnar eða er bara að kortleggja ummerki bjartrar næturinnar, hefur enn ekki tamið sér tortryggni í garð náungans og tekur frumkvæðið í samskiptum okkar.
Gular og bleikar krítar hafa orðið einhverjum verkfæri til listsköpunnar. Bleik mannvera í gulum báti fær göngumann til að staldra við, velta vöngum og sakna myndavélarinnar. Mannveran er greinilega í bát en ekki baðkari þó hlutföllin gætu bent til annars, það er flagg í skutnum og á því stendur Ísland. Hendur og fætur mannsmyndarinnar hanga út fyrir borðstokkinn nema sú hendin sem heldur á flösku því þarna er drukkið af stút. Verslunarhelgarminni, hugsa ég og velti fyrir mér aldri listamannsins, nú eða Þjóðhátíðarminni. Ætli þetta eigi að vera stílfærður Herjólfur á leið til Eyja? Framvegis ætla ég að reyna að muna eftir að taka myndavélina með í morgungöngur.
Á sólríkum sumarmorgni er það svo skrifstofuvinnan sem bíður en ekki heyannir. Brakandi þrukurinn kallar þó frekar til mín að fara að snúa í heyinu og helst með handverkfæri en ég er ekki með hrífu og sé hvergi flekk til að snúa í svo ég rölti heim til að verða ekki of sein í vinnuna.
Að sjálfsögðu rölti ég með myndavélina sömu leið næsta morgun og myndað hann Maríus 2 á leiðinni á Þjóðhátið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli