Af ýmsum langsóttum ástæðum sem engann varðar um og engann langar vitund til að lesa langorðar skýrngar á endað ég í göngutúr verstur á Seltjarnarnesi í kvöld. Ég er þar með gegngin upp að hnjám, umm, allavega upp að ökklum. Þetta eru ekki verulegar ýkjur þar sem ég hef gert sjálfri mér þann óleik undanfarið að nenna ekki færa innleggið milli þegar ég skipti um skó. Við það að hafa sólann í báðum skónum jafn þykkann færist stoðkerfisvandamálið í aukana og ýmsar vöðvafestur fara að væla og ískra.
Reynda ætlaði ég ekkert að fara að tala um það, ég missi mig bara í bulli um vandamál og verki eins og ég sé ritari sjúkraskýrslna en ekki móttökuritari í afleysingum. Svei attan.
Kvöldgolan á Seltjarnarnesinu var fersk, full af súrefni og á svakalegri hraðferð. Ég var dregin í fjöruna til að ganga í sandinum. ,,það er svo gott fyrir smávöðvana" fullyrti konan í tvíburamerkinu og þó mínar vöðvafestur væru ekki sammála þessu lét ég þetta eftir henni. Til að sýna þó einhvern mótþróa í verki reif ég mig úr skóm og sokkum og rölti berfætt í flæðarmálinu, dró hana svo yfir stórgrýtta varnargarðinn. ,,Það er svo gott fyrir jafnvægisskynið að tipla á hnullungunum" sagði ég svellköld og vorkenndi henni ekki vitunar ögn að paufast yfir.
Það var svo hvasst á Nesinu að kríurnar skorti afl til að mæta rokinu og ráðast á okkur. Þær þurftu að beita lagni og fljúga undan vindi, með því náðu þær að hrella göngufólk örlítið en þetta var að mestu ótúttlegt og tætibuskulegt garg sem hræddi engan. Blásturinn í eyrun olli meira vandamáli en kríugargið. Það voru fáar hugsanir í kollinum á mér þegar ég lagið af stað en við ferðalok voru þær allar foknar út um eyrum.
Á morgun ætla ég að skreppa í Borgarfjörðinn og skoða Flóru Íslands, kirsuberjatréð sem ég setti niður allt of seint á síðasta ári og leggja blessun mína yfir matjurtagarðinn hjá mákonunni.
Mig langar í eplatré í garðinn og í dag frétti ég af litlu fallegu einbýlishúsi með stórann garð til leigu. Mig langar í það líka og ég er ekki alveg að skilja hvers vegna ég get ekki fengið allt sem mig langar í. Usbikistanferð líka.
Vá, ég fer facebookar- og tölvuleikjalaus að sofa í kvöld!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli