18. júlí 2010

Líkur sækir líkan heim, eða svepp

Mér tekst oftar en ekki að koma mér í kynni við fólk sem deilir með mér áhugamálum og stundum kemur það þó ekki í ljós fyrr en ég er búin að þekkja viðkomandi í mörg ár. Þannig er með Sveppakonuna.
Sveppakonan kenndi mér sitthvað um sveppi í dag og ég þuldi upp fyrir hana nokkur jurtanheiti sem hún var búin að gleyma. Ég get ábyggilega sagt henni sömu jurtaheitin aftur á næsta ári, hún er gleymnari en ég og með meðfæddan athyglisbrest svo hún er löglega afsökuð með gleymskuna.
Ég og Sveppakonan skruppum upp í Borgarfjörð í dag til að huga að sumarbústaðabyggingunni hjá bróðir og mákonu, svo ætluðum við að skoða sveppa- og berjasprettu.


Hjónakornin úr Hafnarfirðinum voru í óðaönn að slá upp fyrir grunninum að bústaðnum með aðstoð tveggja afkvæma.
Ég tafði þau aðeins, skoðaði kirsuberjatréð sem ég setti niður hjá þeim í fyrra og klippti það aðeins til.
Dáðist svo að forláta kartöflugrösum sem höfðu náð að teygja sig upp úr moldarflaginu en þörfnuðust greinilega vökvunnar. Ég gleymdi að mynda garðrkjuframkvæmdirnar, náði bara að smella af nokkrum af smiðnum að segja konunni og krökkunum fyrir verkjum. Myndavélin er eitthvað vanstillt svo fókusinn er lélegur.

Frá Brekkugötunni fórum við yfir í Skorradal og leituðum að sveppum, fundum fá en því meira birki svo við tíndum slatta af birkilaufi. Maðkurinn sem ekki hafði vit á að forða sér undan okkur getur sjálfum sér um kennt þegar hann lendir í tevatninu.
Svo fundum við svepp og svoeinn eða tvo í viðbót.
Þessi hvíti er ætur, skeiðsveppur held ég að hann heiti og hann stóð ekki langt upp úr mosanum og grasinu. Hann er auðþekktur á rákunum á hattinum, það er svolítið eins og hatturinn sé hálfgagnsær og fanirnar myndi skuggarákir í gegn.
Það má þekkja hann á fleiru og ef maður nær þessum þremur einkennum held ég að maður geti verið öruggur um að vera með réttan, ætan svepp.
Stafurinn er munstraður eins og sést á myndinni af honum og síðan er slíður um stafinn alveg neðst. Þetta slíður er leyfar af himnu sem umlykur sveppinn allan þegar hann er glænýr. Þegar sveppurinn stækkar sprengir hann upp himnuna og leifarnar af henni eru neðst á stafnum og sést oft sem flekkir á hattinum líka.

Hér er svo mynd þar sem þessi þrjú einkenni ættu öll að sjást. Svona sveppi er í lagi að borða en þeir eru ekki góðir hráir. Reyndar segir í sveppakverinu sem ég fékk lánað í dag að það sé bara einn sveppur sem sé góður hrár í salöt. Ég finn það nafn seinna.

Kúalubba og grænangúbba eða hvað hann nú heitir fundum við líka og svo fundum við nokkur þokkalega þroskuð aðalbláber, nokkur minna þroskuð bláber og það sama með krækiberin. Ef það verður sólskin alla daga í næstu viku verður óhætt að fara í berjamó um næstu helgi.

Engin ummæli: