22. júlí 2010

Nethangs

Núna fer ég næstum því jafn oft inn á bloggið og á facebook áður en ferðir lögðust af í það byggðarlag. Hér hefur bara enginn neitt að segja nema ég sjálf og ég endist ekki lengi við að lesa sjálfa mig þó ég sé auðvitað manna skemmtilegust. Þeir bloggarar sem ég fylgist með blaðra ekki nærri því eins mikið, eða oft, og facebookarfélagar svo oftast stoppa ég stutt við.
Ég velti því fyrir mér hver sé helsti hvatinn að þessum ferðum mínum hingað og hallast að því að það sér hrein og klár leti, ég sest við tölvuna og fer að rápa um á netinu til að skjóta mér undan alvöru verkum. Þetta eru sem sagt hrein og klár undanskot, tímaundanskot, afkastaundanskot eða verkundanskot.
Þrátt fyrir undanskotin kom ég því loksins í verk að finna mp3 spilarann sem ég keypti í vor til að láta lesa fyrir mig námsbækurnar. Ég var í miðju kafi að lesa æsispennandi barnabók þegar ég kom úr Básum um daginn en einhvern veginn dagaði uppi áhuginn á að klára hana. Ég lífgaði blessaðan áhugann við í gær, pússaði rykið af græjunni og hlustaði í morgun í göngutúrnum og við uppvaskið og eldhústiltektina eftir vinnu í dag. Eldhúsið er eins og gömlu Ajaxauglýsingarnar eða hvað það var nú aftur sem fór eins og hvítur stormsveipur. Á morgun þarf ég að finna nýja bók, helst lesna af Sif Ragnhildardóttur, að hlusta á og sjá hvaða bletti hússins ég hvítskúra á meðan.

Hvítir stormsveipir í eldhúsinu og konuna sem ryksugaði í þrjár vikur voru goðsagnir auglýsinganna fyrir þrjátíu árum. Það leit allavega út fyrir að konan væri í ryksugunarmaraþoni því í auglýsingunni snerist hún hring eftir hring með ryksuguna meðan karlmannsrödd sagði okkur varnarlausum sjónvarpsáhorfendum frá því að þessi kona hefði ekki kveikt á sjónvarpinu í þrjár vikur. Hún tók bara upp sjónvarpsdagskránna og notaði tímann í annað. Ég kveikti reglulega á sjónvarpinu nema auðvitað í júlí sem var sjónvarpslaus mánuður á þessum tíma, og eftir nokkra mánuði að þessari aulýsingu var ég farin að vorkenna konunni með ryksuguna. Ég vorkenndi henni að vera alltaf að ryksuga og að þurfa svo að horfa á þriggja vikna gamla fréttatíma.

Ég kveiki sjaldan á sjónvarpi orðið þó það líði ekki þrjár vikur á milli þess að ég sitjist fyrir framan það og þess vegna sé ég sjaldan aulýsingar en nú verð ég af fara að horfa á þær með nýju hugarfari. Ég hef nefnilega grun um að áherslurnar í auglýsingum hafi breyst. Ég man t.d. ekki eftir að hvítir stormsveipir eldhúsanna séu viðfangsefni þar lengur, örugglega ekki vídeóin og ljóminn er heldur ekkert ljómandi góðu lengur. Hvað er þá auglýst? Dömubindi og hvað? Já það er sem ég segi, ég þarf að fara að horfa á auglýsingar, rifja upp þessar gömlu og spá í hvernig þær sýna þjóðfélagsbreytingar síðustu þrjátíu ára.

Morgundagurinn og hálfur mánudagurinn eftir í vinnunni (í bili) og núna hef ég nóg að gera, ég vona bara að mér takist að klára það frá áður en ég skila af mér.
(ég nenni ekki að lesa yfir, þið látið bara sem þið sjáið ekki villurnar)

Engin ummæli: