Við fótatak mitt rumskaði Gráhvíta hetjan sem á þessa íbúð þó hann lofi Flubbanum náðarsamlegast að hafa nafnið sitt á pappírunum. Hann kom og pírði á mig augun með svip þess sem efast ekki um réttmæti krafan um að tvífættlingar fylli á matardalla um miðjar nætur ef svo ber undir. Ég hlýddi. Þegar ég teygði hendina að matarboxinu sem enn stóð á eldhúsborðinu sá ég að einhverja óljósa og óskýra ló svífa yfir borðinu. Hálfsofandi og gleraugnalaus reyndi ég að skerpa fókusinn á flyksuna en hún var jafn óskýr áfram. Mig grunaði þó að hér væru ekki rykörður heimilisins að vinna bug á þyngdarlögmálinu svo ég svipaðist um eftir þræði ofan úr ljósi eða lofti. Ég fann ekki bara einn heildur tvo og sá að umrædd ló var að spinna sig niður eftir öðrum þeirra.
Mér er illa við óvæntar uppákomur að næturlagi, þær gera mig grimmlynda svo málið var leyst með gusu af skordýraeitri. Í dagsbirtu skríður grimmdin inn í afkima hugans og ég veiði oft köngulær í krúsir og hendi þeim út í garð (þó ég hafi haldið öðru fram 2007). Í nótt sofnaði ég vært eftir ódæðið en samviskubitið bærði á sér í morgunbirtunni þegar ég ryksugaði upp hræið og sleit niður þræðina. Hún var víst bara að vinna það sem eðlið bauð.
Mikið er ég samt ánægð með að hún skyldi ferðast eftir eldhúsloftinu en ekki svefnherbergisloftinu. Ég sé fyrir mér vefinn sem hún hefði getað spunnið frá loftinu og niður í hárið á mér meðan ég svaf.
(meðflylgjandi mynd er fengin að láni hjá óþekktum ljósmyndara, takk fyrir lánið!)
1 ummæli:
frekjan
Skrifa ummæli