27. júlí 2007

Áttfætlusamstarf

Ég vaknaði einn morguninn í vikunni og þegar ég var búin að teygja úr mér leit ég upp í loft áður en ég þröngvaði fótunum fram úr rúminu. Ég sá stóra áttfætlu kúra neðan í loftplötunum og hugsaði með mér ,,shit, nú þarf ég að fara og ná í ryksuguna og ég nenni því ekki".
Eftir morgunsturtuna leiddi ég hugann hvorki að áttfætlum eða ryksugum heldur dreif mig beint í vinnuna með hafragrautinn í plastboxi.
Morguninn eftir vaknaði ég reif upp augnalokin og leit upp í loft. Það liggur svo beint við að líta upp í svefnherbergisloftið þegar maður liggur á koddanum enda eru það einu skiptin sem ég tek efir því að það sé loft í herberginu mínu, þegar nágrannarnir haf hátt og stappa mikið leiði ég hugann stundum að gólfinu þeirra sem er yfir höfði mínu en það er önnur saga.
Þennan morgun sá ég tvöfalt, að ég hélt. Könguló í öðru veldi spásseraði um svefnherbergisloftið og hafði ekki meira fyrir því heldur en nágrannarnir á efri hæðinni hafa fyrir að ganga um efra borðið á loftinu. Þegar ég var búin að depla augnum nokkrum sinnum sá ég að aðeins önnur köngulóin hreyfðist og þá gat ég útlokað að ég sæi töfalt, hún virtis aðeins hafa náð sér í annan sambýling en mig þessa nótt og nú, mér til mikillar skelfingar virtist hún ætla að losa fæturnar frá loftplötunni og ég bað þess innilega að hún væri föst á þræði þarna uppi en ætlaði sér ekki að taka hástökk ofan á andlitið á mér. Sú bón rættist þvi kvikindið byrjaði að spinna sér þráð niður úr loftinu en hin sat sem fastast og ég velti því fyrir mér hvort hún væri kannski innrásarher sem hefði laumst inn um gluggann í skjóli nætur og fyrir áttfætlan væri bara á flótta niður á gólf.
Í staðinn fyrir að fylgjast lengur með þessu samfélagi í svefnherbergisloftinu skaust ég fram úr rúminu áður en þráðurinn bæri köngulóna niður til mín og ákvað að láta þær eiga sig fram yfir sturtu og morgunverð og sjá þá til hvort ég legið það á mig að ná í ryksuguna eða beitti öðrum aðferðum við að úthýsa kvikindunum.
Þegar ég var búin að morgna mig hélt ég aftur inn í svefnherbergi nú vopnuð glerkönnu og auglýsingapésa, mikið af þeim auglýsingapésum sem koma inn um bréfalúguna geta ært óstöðugann og kannski stökkt köngulóm á flótta.
Inni í herberginu var önnur köngulóin búin að spinna sér þráð niður á loftljósið og hin virtist vera að spinna annan yfir í hengiplöntuna í glugganum. Köngulóaarkitektinn var greinilega búinn að skipuleggja stóran vef þarna á milli og þær voru byrjaðar að leggja grunninn. Ég veit ekki hvort köngulær eru vanar að vinna tvær og tvær saman við vefnaðinn en fannst þetta allt saman mjög athyglisverðar aðfarir og gat varla fengið af mér að spilla þessu góða sambandi. Beitti mig þó hörku setti könnuna undir það dýrið sem hékk í þræði niður úr loftinu skar á þráðinn með pésanum og tæmdi svo könnuna út um gluggann. Ég lék svo sama leikinn við seinna dýrið sem gat engum vörnum við komið en reyndi þó að læsa fótunum í gluggann á leiðinni út. Ég lét hana ekki komast upp með neitt múður og blés henni út um gluggann og niður í garð.
Ég er vön að slátra svona óboðnum gestum með blaði, skósóla eða spreybrúsum en í þetta skiptið fékk ég mig ekki til þess. Annað hvort er ég meirari svona nývöknuð eða þetta áttfætlusamstarf kallaði fram minn betri mann, hvort heldur er hika ég ekki við að stytta þeim aldur ef þær gera sig heimakomnar aftur.

Engin ummæli: