27. júlí 2007

Tíðindalaust

Brottfluttur fyrrum vinnufélagi sendi mér póst í dag og spurði mig um slóðina á bloggið mitt, hún veit greinilega ekki að hér er um leyniblogg að ræða og ef of margir vita af því er hætta á að ég þurfi að vanda mig og hætta að tala illa um vinnufélagana. Ekki það að hér hafi verið talað mikið undanfarið og ef þetta á að vera dagbók virðist fátt gerast hjá mér annað en næturheimsóknir áttfætlna. Ég er þó búin að gera hitt og þetta undanfarið og ég er að hugsa um að lista það hérna upp svo ég geti farið inn á gamlar færslur eftir nokkur ár og séð að ég hafi gert meira en vinna og elta köngulær.
1. Ég fór á ættarmót fyrir tveimur vikum. Lagði á stað á lánsbíl á fimmtudagskvöldi, ætlaði að fara hálfa leið það kvöldið, gista um nóttina og klára svo keyrsluna á föstudaginn til að verða ekki frávita af vöðvabólgu og strengum eftir aksturinn.
Mér tókst að sannfæra mig um það þegar ég setti bílinn á stað við dyrnar hjá mér að ég væri á bensínbíl því ég sá ekkert ljós fyrir glóðarkerti í mælaborðinu.
Í Borganesi tók ég bensín á bílinn og kallaði farþegana til vitnis um að ég væri ekki að dæla diselolíu á hann eins og ég er vön að gera við minn bíl. Tölvunarfræðingurinn borgaði heilan helling fyrir það, hún átti að tanka í þetta skiptið og ég næst. Stúdentinn hafði borgað í göngin.
Rétt um það bil sem við duttum úr símasambandi á Holtavörðuheiðinni hringdi Kennarinn til að vita hvernig gengi. Þegar Tölvunarfræðingurinn (sem nota bene er á fallhlífarstökk námskeiði í kvöld) kvartaði undan því hvað bensínið væri dýrt á bílinn hélt hann að hún væri að segja lélegan brandara og hún endurtók þessa kvörtun sína við hann. Það sem ég heyrði kveikti glóandi eldrautt viðvörunarljós í heilanum á mér sem var þó hálfsoðinn af svefnleysi og vinnuálagið undanfarinna sólahringa og ég beygði út í kannt og drap á bílnum og tók eftir því í leiðinni að ganghljóðið í honum var orðið ansi gróft.
Ég hefði átt að vita að bíllinn er díselbíll og það hefði Stúdentinn átt að muna líka en svona eru nú bara sumir dagar og við þvi er ekkert að gera nema kannski góla aðeins.
Kennarinn sótti okkur innst inn í Norðurárdal, tók sér frí í vinnu daginn eftir til að fara og dæla bensíninu af bílnum, setja á hann olíu og lofttæma svo vélina. Það var hellings vinna og tímafrek.
Vélin slapp og við komumst á ættarmót um kvöldið, framlág, þreytt, svefnlaus og sum orðin kvefuð, önnur að jafna sig eftir kvef.
2. Ég kláraði ættarmót og hitti langt að komna nákomna ættingja sem ég hef sjaldan séð. Ég hitti líka helling af ekki eins nákomnum ættingjum og man fæst af nöfnunum en ég á niðjatal svo ég get alltaf reynt að læra þetta. Tölvunarfræðingurinn sagðist aldrei hafa verið á ættarmóti fyrr þar sem hún þekkti engan nema móður sína, bróður og mákonu. Það rættist nú aðeins úr því þegar systkyni mín mættu á svæðið.
3. Ég fór og ætlaði að sinna sveitaverkunum vikuna á eftir ættarmótinu en svona þétt samvera við kvefuð afkvæmi leiðir bara til eins og það er að maður smitast og af því ég var orðin aðeins of þreytt varð ég heldur veikari en ég hefði verið annars svo þrír dagar af þessum sjö sem ég ætlaði að taka auka fóru í að gera ekkert annað en sitja í stól með hangandi haus eða liggja í rúminu.
4. Ég komst samt á lappir og fékk að leggja stéttina við húsið aftur. Ég lagið hana fyrir þremur árum en henni var rústað í fyrra svo ég mátti endurgera hana og þegar það var búið tókst mér að endurgera eitt blómabeð líka og setja niður í það rósir sem hundurinn ákvað í dag að grafa upp og setja frekar beinin sín niður í holurnar.
5. Kennarinn bókaði fyrir mig farið heim á netinu og í staðinn fyrir að bóka far heim á sunnduagskvöld tókum við dagafeil og ég átti bókað far á laugardagskvöldi. Það var ágætt því þegar ég mætti hér heim sá ég að mér veitt ekki af einum degi til að kenna loðdýrunum að ryksuga og þurka af. Þau horfðu á mig gera þetta en ég held þau hafi ekki lært handbragðið. Ætli ég verði ekki að sýna þeim þetta aftur við tækifæri.
6. Það lýður að næstu vsk skylum og ég þarf að vinna og vinna helst meira.

Engin ummæli: