Einu sinni var óþjóðalýð velt upp úr tjöru og fiðri og í annan tíma voru konur krúnurakaðar fyrir að vera óþjóðlegar. Ég hef þó ekki heyrt af því að íslendingar notuðu þessar aðferðir við þá sem dómstólar götunnar dæmdu seka.
Það getur skýrst af því að langt fram yfir næst síðustu aldamót bjuggum við við gatnakerfi fjár- og reiðgatna og dómstólar götunnar fóru því hægt yfir.
Nú þykir mörgum í góðu lagi að sletta málningu á þá sem hafa verið dæmdir sekir af fyrrgreindum dómstólum. Mætasta fólk sem aldrei dytti í hug að sletta málningu á eigur annarra getur þó réttlætt skemmdarverkin hjá þeim ofstopafullu.
Hvaða munur er á að eyðileggja eignir meintra útrásarvíkinga og eignir þjóðarinnar? Siðferðilega enginn, það er bara magnið sem er annað.
Það hefur komið fyrir að saklausir menn hafa verið dæmdir í öllum réttarríkjum, jafnvel dæmdir til dauða og teknir af lífi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli