Ég er að velta því fyrir mér að breyta titlinum á þessari bloggsíðu.
Ekki að það titilinn eigi eitthvað síður við en í upphafi ég er ennþá jafn sannfærð um að hér eigi orðin ,,Ærna mælir sá er æva þegir staðlausa stafi", sem hefur auðvitað svipaða merkingu og ,,Það bylur hæst í tómri tunnu", óskaplega vel við en stundum get ég ekki lengur lokað augunum fyrir þeirri sjálfsblekkingu sem ég lifi í og finnst þá titillinn LÍF Í SJÁLFSBLEKKINGU hæfa betur.
Einu sinni enn tók ég upp bók og taldi sjálfri mér trú um að ég ætlaði að fara að sofa eftir tvo eða þrjá kafla. Nærri lét að ég færi að sofa eftir tvo eða þrjá klukkutíma og það er ekki annað en ég á að venjast.
Ég er lestrarfíkill og lifi oftast í afneitun á því.
Reyndar var bókin sem ég var að lesa ekkert sérstaklega góð og skelfilega illa þýdd. Hún er svo illa þýdd að það hvarflaði að mér að þýðandinn væri kominn yfir nírætt og löngu hættur að fylgjast með daglegu málfari og lífi íslendinga. Það er eina skýringin á því að hann notar orðið nálgunarsvifting í stað orðsins nálgunarbann!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli