28. janúar 2010

Í kvíðakasti

Ég slysaðist til að opna fjarkennsluvefinn í gær og sá að stærðfræðikennarinn er búinn að setja inn öll verkefni lotunnar, með skiladagsetningum, glærum og öllu sem við á að éta. Ég fékk kvíðakast.
Ekki það að ég hafi áhyggjur af þvi að ráða ekki við stærðfræðina, mest af þessu sem kennt er í fyrri áfanganum var ég búin að taka fyrir rúmlega 15 árum. Það er kennsluumhverfið sem veldur mér þessum kvíða.
Þetta byggist allt up á því að fylgjast með á netinu, sjá hvenær verkefni eru komin inn, hvenær á að skila þeim og passa upp á alla þræði í einu. Vissulega eru margir sem læra 5 til 6 greinar í einu í svona umhverfi og spjara sig ágættlega, ég er bara með tvær, en ég er líka viss um að margir spjara sig ekki.
Ég er aðallega hrædd um að gleyma að fylgjast með, gleyma að skipuleggja mig og skila á réttum tíma.
Ég veit nefnilega sem er að vefjagigtinni hjá mér fylgir athyglisbrestur og einbeitingaskortur sem ég var laus við síðast þegar ég var í námi.

Að svo mæltu fór hún að hlusta á einn fyrirlestur á netinu og hætti blogg- og facebooklestri. Hmm.

Engin ummæli: