Að venju blótaði ég þorra með ásatrúarmönnum og læt það duga í þorrablótum þennan vetur.
Þetta var allt samkvæmt forskriftinni, súrmaturinn litið súr, hangikjötið vantaði, ásatrúarmenn vilja frekar reykt og saltað hrossakjöt og því miður kunnu veisluhaldararnir ekki að geyma hákarlinn. Hann hafði greinilega verið brytjaður niður og geymdur þannig, sennilega í plastílátum, í einhvern tíma og var farinn að taka í sig þetta remmubragði sem fylgir þannig geymslu.
Ætli það sé samt ekki best að sleppa fyrirlestri um meðhöndlun og verkun á hákarli í þetta skiptið.
Kvæðamenn voru á staðnum eins og venjulega, atriðin hafa þó oft verði betri og eitthvað fannst mér salurinn dauflegur í fjöldasöng. Þorvaldur stjórnaði söngnum eins og venjulega og mér finnst orðið ómissandi að hefja þorran með þvi að hlusta á hann syngja Þegar hnígur húm að þorra.
Ungur maður spilaði fyrir okkur á nefflautur og boga og söng barkasöng. Allt þetta hefur hann lært á youtube. Bæði að smíða og spila á þessi hljóðfæri. Reyndar er hæpið að kalla boga hljóðfæri en hann spilaði nú samt á hann.
Youtube er fróðleiksbrunnur um allt milli himins og jarðar, það hef ég líka uppgötvað en er stundum svolítið sein að kveikja á þvi að læra hlutina þar.
Það bjargaði mér frá því að eyða sexþúsund krónum í prjónanámskeið að þegar uppselt var á námskeiðið alveg fram í mars mundi ég eftir Youtube. Og sjá- þar var hægt að læra að prjóna tvo sokka á einn hringprjón. Einfalt mál þegar maður veit hvernig það er gert en ég er nú ekki viss um að þetta sé neitt fljótlegra.
Frá Youtube og aftur að þorrablóti. Ég held mig við að fara á þessi blót einu sinni á ári, borða súrmat sem uppfyllir ekki kröfur mínar um súran mat, vitandi að það mun vanta súran hval og hangikjöt en í ár átti ég bita af súrum hval í ísskápnum og tók hann með mér. Næst tek ég líka með mér hangikjötsflís, ég leyfi nefnilega öðrum að njóta sviðanna. Þau borða ég bara á sviðamessum.
Þessi blót eru orðin nærri því ómissandi hluti af tilverunni og þó dagskráin sé upp og ofan sé ég og heyri skemmtiatriði þarna sem ég fæ ekki annar staðar. Ég er svo forn að mér finnst yndislegt að hlusta á kvæðamenn og aðra einkennilega tónlistarmenn.
Kannski ég gangi bara í þetta blessaða félag einhverntíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli