28. júní 2009

Jökuldalir


Ég kom seint heim úr vinnunni á föstudaginn eins og stundum áður. Og eins og stundum gerist þegar ég kem heim úr vinnunni sest ég við tölvuna heima og opna facebook til að vita hvort einhver hafi sagt eða gert eitthvað merkilegt síðan síðast. Eða, ef ég á að vera alveg heiðarleg, til að sinna aðeins garðyrkjunni minni á netinu. Það fyrsta sem ég rak augun í á síðunni minni var tilkynning um ferð inn að Jökuldalakvísl og í Halldórsgil til að skoða vöð og gönguleiðir og það fylgdi sögunni að skráning væri hafin á farþegalista.
Ég féll í stafi og fékk fjallaglígju í augun.
Eftir japl og jaml og fuður ákvað ég að henda öllu frá mér sem ég ætlaði að sinna þessa helgi. Reddaði afleysingabílstjóra til að sækja Sjúkraliðann á Þingvelli eftir Leggjabrjótsgönguna hennar, henti saman einhverjum bráðnauðsynlegum farangri og mundi meira að segja eftir að hafa til svefnpoka. Hentist svo í kaffisamsæti sem ég var búin að lofa mér í og eftir það beint í Hagkaup til að kaupa nestið.
Á laugardagsmorgun vaknaði ég frekar rugluð í kollinum eins og stundum gerist í stressi og álagi en þá fer heilaþokan að gera illilega vart við sig. Ég þurfti að þjóta á milli staða til að ná í dótið mitt og ástandið var ekki skárra en það að ég var komin margar götulengdir að heiman þegar ég áttaði mig á að það hékk engin myndavél um hálsinn á mér. Ég snéri bílstjóra umsvifalaust við, því ég var ekki á eigin vegum í ferðinni og við sóttum myndavélina.
Samferðafólkið hafði ekki fundið geymslulykilinn og vantaði þess vegna helminginn af viðlegubúnaði en ég hirti allan viðlegubúnað af Flubbanum. Svo komumst við út úr bænum.





Auðvitað uppgötvaðist um kvöldið að allir höfðu gleymt einhverju, mis áríðandi þó en við uppötvuðum líka að það þarf meira en smámuni til að eyðileggja svona ferð. Skítt með mat og eldunargræjur sem gleymast, það má alltaf deila nesti og prímusum.

Um hádegi á laugardagsmorgun var ég farin að ganga berfætt yfir dragaár og dýjamosa upp undir snjólínu í sólskini inni á fjöllum. Lífið gerist ekki ljúfara á íslensku sumri nema þá helst þegar maður skríður í svefnpokann á lækjarbakkanum og hlustar á lóukvak og lækjarnið.

Ég er búin að prófa að sofa í varpoka (bivak) í fyrsta og kannki síðasta skiptið á ævinni. Íþeim kemst maður enn nær náttúrunni en í tjaldi og ég komst líka að því að ég get þetta alveg ef ég bara fæ mér aðra einangrunardýnu og aukaskammt af verkjatöflum.

Engin ummæli: