
Ég keyrði Flubbann og Norðmannin inn í Landmannalaugar á fimmtudag og af því það var svo góð veðurspá ákvað ég að tjalda innfrá eina nótt og dunda mér þar fram eftir degi á föstudag. Ég þurfti að vera komin í bæinn aftur klukkan fimm til að mæta á námskeið í japanskri blekmálun sem ég hafði skráði mig á í Norræna húsinu og gat ekki hugsað mér að sleppa.Ég komst að því aðfaranótt föstudags að svefnpokinn minn heldur bara alls ekki á mér hita í tjaldi, ekki einu sinni á hlýjum sumarnóttum. Ekki það að sjálfsagt sígur súlan á hitamælinum sjálfsagt meira inn í Laugum en niðri við sjávarmál. Eftir góðann göngutúr í Laugahrauninu var ég orðin of sein í bæinn og ók eins og vitlaus manneskja beina leið í Norræna húsið. Fékk meira að segja Kennarann til að brjótast inn heima hjá mér og færa mér föt til skiptanna á staðinn svo útilegu fötin og lyktin færi ekki fyrir brjóstið á nettum japönunum sem voru að kenna blekgerð og málun.
Ekki veit ég hvað ég hafði svo sem upp úr þessu námskeiði en ef ég hefði ekki mætt hefði ég trúað því statt og stöðugt að ég hefði misst af einhverju.
Á laugardaginn kom svo stressið, næturkuldinn og aksturinn í bakið á mér með tilheyrandi hausverk, sljóleika og heilaþoku.
Ég náði mér samt það mikið þegar leið á daginn að um kvöldið opnaði ég bók til að lesa ,,nokkra" kafla og lagði hana ekki frá mér fyrr en klukkan fjögur um nóttina. Dreif mig svo fram í stofu fyrir klukkan tíu til að klára hana áður en ég næði í Flubbann og Norðmanninn í Bása en þær kláruðu Laugavegsgönguna í dag og þurftu einhvern veginn að komast heim blessaðar.Leiðin inn í Bása er löng og þar sem olían er dýr og lögreglan í þyrlum dólaði ég á rólegum hámarkshraða svo mér gafst nægur tími til að velta efni bókarinnar sem ég var að lesa fyrir mér, aldrei þessu vant. Ég komst að þeirri niðurstöðu að hún sé virkilega góð, ekki bara spennandi glæpasaga heldur hefur hún ýmsan boðskap fram að færa um mannlegt eðli og hegðun.
Mér er sagt að þetta sé fyrsta bókin í því sem átti að vera fjögurra bóka sería en höfðundurinn hafi ekki náð að skrifa nema þrjár þeirra áður en hann lést. Ég bíð eftir að hinar tvær komi út á íslensku.
Karlar sem hata konur er bók sem ég sé ekki eftir að hafa vakað yfir hálfa nóttina og allan morguninn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli