3. maí 2009

Sunnudagsrúnturinn



Sunnudagsrúnturinn í dag var vestur eftir Reykjanesskaganum, inn á Krýsuvíkurleið, Bláfjallaveg, um Breiðdal, Djúpavatnsleið, Suðurstrandaveg og í krókum og hlykkjum út að Reykjanessvita og heim aftur. Í Grindavík var stoppað til að borða grillaða hamborgara, pulsur og fá tertu í eftirrétt og í ferðalok var farið í vöfflukaffi á Vatnsleysuströnd.
Ég hef alltaf verið veik fyrir bæjarstæðum við fjörukambinn sem er kannski ekki skrýtið hjá fólki sem elst upp í fjörunni og nú hef ég mikla ágirnd á húsi með útsýni yfir öldurót og þarabeðjur í fjöru og á skerjum, og vitaljós lýsir inn í eldhúsglugga á myrkum vetrarkvöldum. Ég get hugsað mér að sitja við stofuglugga og horfa á brimið brotna á skerjunum rétt við gluggann. Hver þarf sólpall og skjól ef svona útsýni er í boði.
Ég tók 132 myndir skv. teljara og þær voru allar teknar bæði í raw og jpg ca 10 fara beint í ruslið en ég á eftir að fara yfir allar hinar og athuga hvort þarf að henda fleirum, rétta svo af slatta því ég halla alveg gífurlega undir flatt þegar ég tek myndir. Ég keypti mér hallamál á vélina en gaf mér ekki nógu mikinn tíma til að æfa mig í að nota það. Svo og því miður komu rigningadropar á linsuna í einhverjum skúrnum svo sennilega þarf ég að fótósjoppa líka einhverjar.
Ég hef eitthvað að dunda í á meðan.
Annars þarf ég að skreppa þessa leið ein eða um það bil ein með myndavélina og þrífót, sleppa öllum krókum og kimum og taka bara myndir.

2 ummæli:

elin sagði...

ein.....

þýðir það ekki örugglega ein með bara ellu með mér ?

Hafrún sagði...

Bara Ellu ef hún verður stillt.