--------------------------
Ég hef sennilega sofið frá mér allt vit í gær því ég er ekki vitund sifjuð þó það sé komið la
ngt fram á nótt og ég búin að puða við bölvaða vitleysistiltekt í allt kvöld. Meira að segja lagði ég það á mig að þramma út í geymslu til að ná í níðþungar tröppur, drösla þeim upp í stofu og standa í þeim riðandi við að færa til ljósin. Eitt ljósið þoldi ekki meðferðina og dó. Ég færði það samt.
ngt fram á nótt og ég búin að puða við bölvaða vitleysistiltekt í allt kvöld. Meira að segja lagði ég það á mig að þramma út í geymslu til að ná í níðþungar tröppur, drösla þeim upp í stofu og standa í þeim riðandi við að færa til ljósin. Eitt ljósið þoldi ekki meðferðina og dó. Ég færði það samt. Meðan ég stóð í þessu brasi í skápum og stiga í kvöld hreiðraði einn sambýlingur minn um sig í
sófahorninu og lét sér fátt um finnast. Ég rifjaði upp söguna af þeim Mörtu og Maríu og manninum sem sagði ,,Marta, Marta hví mæðist þú" og var ekki í vafa um hvort okkar var í hvaða hlutverki í kvöld. Sá rauði hefur ábyggilega aldrei heyrt söguna um þær systur og ef hann á eftir að heyra hana er honum ábyggilega slétt sama. Sjálfsvirðing veit hann ekki hvað þýðir en hefur nóg af henni samt.
Það er annað sem klikkar þessa dagana og það eru hlutar af mér sjálfri. Samt þegar ég gerði tilraun til að fara í pjattskó í dag gerði ég ánægjulega uppgötvun. Ökklinn sem klikkaði í janúar síðastliðnum og hefur þverneitað að aðlaga sig hælum síðan þá kveinkaði sér ekki vitund við að fara í þessa dálætisskó mína í dag og meira að segja gat ég verið í þeim í marga tíma. Að vísu sat ég megnið af þessum tíma en ég var samt afskaplega ánægð með sjálfa mig af þessu tilefni.
Svo af einhverjum ástæðum langar mig til að lesa Sonartorrek Egils Skallagrímssonar fyrir svefninn. Ég ætla að láta það eftir mér.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli