Ég er búin að sauma heilt pils í dag. Að vísu á ég eftir að falda það en það er nú smáræði miðað við allt hitt. Ekki bara það að ég sé búin að sauma pilsdrusluna heldur er ég búin að sauma stórann hluta hennar tvisvar og jafnvel þrisvar. Það er langt síðan ég hef saumað flík.
Þetta hafðist nú að lokum og nú getur Flubbinn sungið í því á tónleikum á morgun. Hún verður bara fín í því þó ég segi sjálf frá og þó zikzakkið og ýmsir endar séu einkennilegir sést það ekki utan frá.
Þetta gengur svo bara betur næst.
Meðan á saumaskapnum stóð tókst Flubbanum að brenna tvo potta af poppi og raula Ave María fyrir mig og kettina.
Ég ætla ekki á tónleikana hjá þeim á morgun, ég fer ekki fyrr en 29.nóv. Á morgun ætlaði ég í afmæli en það eru að renna á mig tvær grímur, ég er ekki viss um að ég hafi heilsu í það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli