1. maí 2008

Mínar ær og kýr

Af því að það eru mínar ær og kýr að grúska og gaufa og svo af því að ég hef fengið óheftan aðgang að viðburðardagatali vinnunnar dett ég í að finna hinar og þessar upplýsingar til að setja þar inn.
Í dag stendur þar:

Uppstigningardagur er fjörutíu dögum eftir páska og þann dag minnast kristnir menn uppstigningar Jesú Krist til himna.
Dagurinn er einn af 15 lögbundnum frídögum almannaksársins, hann hefur verið haldinn hátíðlegur í kristni frá því á fjórðu öld og er einn fárra helgidaga kirkjunnar sem ekki var afnuminn við siðaskiptin 1550. Þessi dagur hefur verið einn mesti hátíðisdagur kristinnar kirkju frá því um 1200.
Í ár ber svo við að hátíðisdagur kristinna manna til minningar um himnaför Krists og Alþjóðlegur frídagur verkafólks fara saman. Þessi dagur er jafnframt helgaður Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi og í Svíþjóð er haldð upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1. maí.
Rótgróin hefð var fyrir því í sunnanverðri Evrópu að taka sér frí þennan dag en í heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrar og upphaf sumars og í Skandinavíu var 1. maí fyrsti dagur sumars. Það var svo árið 1889 að samþykki var tillaga frá Frökkum á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks og jafnframt að þessi dagur yrði notaður til fjöldafunda til að krefjast 8 stunda vinnudags og annara umbóta.
Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga á 1. maí á Íslandi og dagurinn varð lögskipaður frídagur hér árið 1972 en til samanburðar má geta þess að í Svíþjóð var dagurinn gerður frídegi árið 1938.



Bara svona ef þið skilduð ekki fylgjast með viðburðardagatalinu okkar. ;)

Engin ummæli: