5. maí 2008

Gönguþreyta

Fór í Hafnarfirska menningargöngu um neðsta hluta Selvogsgögu á laugardaginn, næst nyrsta væri kannski nær að segja, nyrst hlutinn liggur frá Kaldárseli niður í Hafnarfjörð. Það var lítið sagt frá þeirri menningu sem skapaði svona gönguleiðir þar sem menn og hestar fóru í milli þéttbýliskjarna fyrr á öldum og skinnklæddir mannsfætur ásamt járnuðum hestfótum hafa markað götu í hraunið. En það var minnst á ýmislegt annað svo sem hraunið, gróðurinn og örnefnin og við skoðuðum bæði Fosshelli og Hundraðmetrahelli, Ég fór í hvorugan, lét mér nægja að kíkja inn í hellisopin. Dimmir hellar með moldarhrúgum í gólfi og lykt af innilokun og rotnun hafa aldrei höfðað til mín, samt ég hefði nu sennilega látið mig hafa að staulast í gegnum Fosshelli ef ég hefði verið með ljós.
Eftir þessa 7 kílómetra rólegu göngu var ég stálsleginn, svo stálslegin að ég skrapp í kaffi um kvöldið og sat í því til að verða þrjú um nóttina. Ég var aftur á móti frekar framlág í gær og ennþá þreytt, orkulaus og lurkum lamin.
Þetta kallar á aðra rólega göngu um næstu helgi og hjólaferðir í vinnuna þegar mesta þreytan verður farin að líða úr mér.
Stóra planið mitt er að bæta heilsuna og þrekið í sumar en ég fór á annað Stórt plan í gærkveldi og fannst tímanum hefði verið betur varið við að klára að umpotta blómunum. Þetta er eins og sonurinn segir ,,vídeómynd", svo sem allt í lagi að sitja yfir henni í roki og rigningu þegar maður nennir ekki að gera neitt nema glápa. Svo er ég orðin hálf þreytt á að horfa á Pétur leika lúser í sjónvarpsþáttum, augýsingum og bíómyndum. Hann getur alveg leikið strákurinn og þarf ekki að festast í þessum hlutverkum.

Engin ummæli: