17. desember 2007

Svimi

Ég held að það hafi ekki verið fyrir lofthræðslu sem mig svimaði svo mikið í morgun að ég gafst upp í vinnunni klukkutíma eftir að ég mætti. En hvernig sem á því stóð var heilsan svo léleg að ég hefði átt að halda mig í rúminu í morgun í stað þess að læðast í vinnuna á bílnum. Ég var varla ökufær heim og þurfti að tala sjálfa mig til í gríð og erg til að lognast ekki út af undir stýri. Svaf svo meira og minna í sex tíma og hef dottað af og til síðan.
Það er grenjandi rigning, svo slæm að kattaprinsinn á heimilinu vogaði sér ekki út heldur sat í dyrunum og ruggaði fram og aftur því hann var alveg að pissa á sig og þá er sko veðrið orðið slæmt.

Ég keypti hálfa myndavél í gær en er ekki farin að skoða hana ennþá, kom þó við hjá Kennaranum í gærkveldi og setti rafhlöðuna í hleðslu. Ég þarf svo að finna mér tíma til að læra á gripinn.

Gömul skólasystir úr heimavistinni og nágranni úr sveitinni á afmæli í dag. Skrýtið hvað maður man sum afmæli en önnur ekki. Hún fæddist um borð í strandferðaskipi en fékk ekki að heita í höfuðið á því.
Þó svo að ég óskaði henni til hamingju hérna kæmist hún aldrei að því svo ég læt mér nægja að hugsa til hennar. Vel að sjálfsögðu.

Engin ummæli: