Það er galli á heilabúinu í mér. Hann lætur sérstaklega mikið fyrir sér fara í skammdeginu þegar sólin er skriðin í hýði og dagsljósið flutt á aðra vetrarbraut. Þessi galli veldur ofáti og minnistapi og það er allt honum að kenna að ég tók upp rafmagnslausa myndavél áðan.
Það vita flestir að rafmagnslausar myndavélar henta illa til æfingamyndatöku af blysum og flugeldum en ef ég hefði ekki gengi fram á ísilagt tré rétt neðan við Perluna áðan og reynt að taka af því myndir hefði rafmagnið dugað til að smella af einni til tveimur myndum af flugeldunum.
Ég gekk fram á þetta ísilagða tré rétt við gervihverinn í Öskujuhliðinni og ég var að veltast þar í óþökk varðliða Landsbjargar vegna þess að á leið minni úr Nauthólsvíkinni gekk ég fram hjá manni sem stóð við einn af akvegunum um Öskjuhlíðina og kallaði hástöfum í þá sem voru síðastir í blysgöngu FÍ og Útivistar að við ættum að beygja upp á veginn. Ég hlýddi og nokkrir aðrir, flestir af þessum nokkrum hafa snúið við og elt hitt göngufókið sem betur fer fyrir þá því ég og þeir sem héldu upp í hlíðina þarna komum fljótlega að gulum borða sem varnaði okkur leiðarinnar. Við gerðum tilraun til að hundsa það en rákumst þá á varðliðana sem gerðu okkur afturreka og eftir að hafa þrætt stíga og ófærur komum við að gervihvernum þar sem þessi langa málsgrein byrjaði á.
Það er lítið meira um þetta mál að segja ég hef áður villst í blysgöngu í Öskjuhlíðinni og séð flugeldasýningu fyrir því en ég lagði vel á þetta litla minni sem ég hef að maðurinn sem vísaði okkur úr leið var ávarpaður með nafni af einhverjum göngumanni og spurður að því hvort hann væri að vinna fyrir Útivist. Ég velti því fyrir mér hvort leiðsögn hjá því félagi sé öll í þessum stíl.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli